Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:53]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er mikið talað um Ríkisendurskoðun og traust til hennar. Hv. þingmaður leggur mikið upp úr því að Ríkisendurskoðun sé með þetta mál til athugunar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist lög nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, gefa sérstaklega til kynna að stjórnvöld geti átt sérstakt frumkvæði að athugunum ríkisendurskoðanda og að það sé góður bragur á því að stjórnvöld óski eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á tilteknum málefnum. Ég vil heyra frá hv. þingmanni hvort það séu einhver ákvæði í þessum lögum um það. Það kemur mjög skýrt fram í þeim á hvaða lagagrundvelli Ríkisendurskoðun skoðar mál og hvaðan frumkvæðið á að koma. Það er fjallað um að það geti komið frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og frá níu þingmönnum. Ég vil kannski heyra frá honum hvort honum finnist góður bragur á því að stjórnvöld, sem eftirlitsstofnanir Alþingis rýna í hvað gera o.s.frv., eigi sérstaklega frumkvæði að því að biðja stofnanir Alþingis um að rannsaka sig.