152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:15]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir ræðuna sem var upplýsandi og svaraði mér í ýmsu. Mig langaði að fylgja þessu máli aðeins meira eftir, þessum vangaveltum um hlutverk laga og reglna í þessu máli. Ég veit að fulltrúar Viðreisnar hafa lýst því yfir í þingsal að þeir séu fylgjandi sölu á bönkunum og það er auðvitað pólitík að hafa afstöðu í svona málum. En mig langar að spyrja: Hvaða áhrif telur þingmaðurinn að þetta útspil ríkisstjórnarinnar 19. apríl, ef ég man rétt, um að leggja Bankasýsluna niður, hafi á markaðinn og traust aðila þar til ríkisstjórnarinnar sem eiganda og aðila til að eiga í viðskiptum við í framtíðinni? Ég held að þetta hljóti að koma við sögu þegar við erum að velta öllum steinum við í þessu máli, ekki síst þegar Bankasýslan sjálf lýsti því svo yfir að hún ætli að halda eftir óljósri upphæð af þessum 700 milljónum af því að hún áskildi sér rétt til að skoða málin. Ég sagði í ræðu minni fyrr í dag að menn hefðu einhvern tímann sent mál í gegnum dómskerfi fyrir minna en 700 milljónir. Deilir hv. þingmaður þeirri skoðun með mér að þetta gæti mögulega haft áhrif á verðmæti bankans þegar til þess kemur að selja hann aftur?

Frú forseti. Almenningur er líka hluthafi í bankanum. Við keyptum mörg í júní í fyrra, sum eru búin að selja, ekki öll. Þetta er auðvitað líka aðferð fyrir almenning til að ávaxta fé.