152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:21]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það blasti við okkur flestum að mikil taugaveiklun var í þessari fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar, það þurfti eitthvert viðbragð eftir margra daga þögn. En efni hennar var stórpólitísk tíðindi. Það er verið að leggja niður sjálfstæða stofnun sem heldur á 400 milljörðum án þess að tilraun sé gerð til að svara því hvað taki við, hvernig framtíðarmyndin eigi að líta út og hvað eigi að gerast í þessum millikafla. Þarna undir eru allar þessar eigur en engin svör frá ríkisstjórninni um hvaða skref eigi að stíga í kjölfarið eða hvað eigi að gerast í millitíðinni. Það verður að segjast eins og er að það er ævintýralegt ábyrgðarleysi að ætla sér að komast fram hjá pólitískum skandal, eins og ég leyfi mér að kalla það, með því að fara í slíka aðgerð og eiga engin svör um það hvað taki við eða hvernig leysa eigi úr málum. Það er ævintýralegt ábyrgðarleysi.