152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:52]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir annmarkar sem í ljós hafa komið við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa leitt í ljós þörfina fyrir endurskoðun á lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður. Þetta kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 19. apríl og ég hef svolítið reynt í dag að fá það almennilega fram hvaða annmarkar það eru nákvæmlega sem oddvitar ríkisstjórnarinnar telja að hafi komið í ljós. Hæstv. fjármálaráðherra vísaði til skorts á gagnsæi og vísaði til þess að upplýsingagjöf hefði verið ábótavant. Þetta hefur svolítið bergmálað í ræðum fleiri stjórnarliða, m.a. hjá tveimur nefndarmönnum í fjárlaganefnd. Vandinn við þetta er náttúrlega að þetta eru ekki beinlínis framkvæmdaatriði sem eru á beinni ábyrgð Bankasýslunnar heldur miklu frekar atriði sem einmitt heyra beint undir fjármálaráðherra að sjá til að séu í lagi. Það er nefnilega þannig að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum gera ráð fyrir ákveðinni aðkomu Alþingis. Það er ráðherrann sjálfur sem undirbýr greinargerð, ber skylda til þess, og á að tryggja að Alþingi fái ákveðnar upplýsingar um fyrirhugað söluferli og ef þarna komu fram einhverjir alvarlegir annmarkar eða vantaði upp á gagnsæi og upplýsingagjöf og ef Alþingi fékk með einhverjum hætti ekki réttar upplýsingar um hvað stæði til þá hlýtur það auðvitað fyrst og fremst að vera á ábyrgð ráðherra sem í raun hefur forgöngu um þessa upplýsingagjöf til þingsins.

Önnur atriði sem t.d. hafa komið fram í máli forsætisráðherra lúta að því til að mynda að ekki hafi verið sett skilyrði um binditíma og lágmarksfjárhæð í útboðinu. Þetta eru eins atriði sem ráðherra hefði auðvitað átt að gæta að. Það er ekki endilega hægt að ætlast til þess að Bankasýslan taki ákvörðun um slíkt að fyrra bragði. Mér finnst því enn þá að mörgu leyti vera ósvarað eftir daginn hvaða meiri háttar annmarkar við framkvæmd og undirbúning það eru sem kalla á þau viðbrögð að leggja þessa stofnun niður. Ég verð að segja að mér finnst ekki góður bragur á því, svona ákveðinn flumbrugangur einhvern veginn að hlaupa til þegar það er uppnám í samfélaginu vegna umdeildra atriða í sölunni og ákveða að leggja það til við Alþingi að leggja þessa stofnun niður. Mér finnst það líka athyglisvert, sem hér hefur komið í ljós í dag, að ráðherrum í ríkisstjórn finnst ekkert athugavert við að flytja almenningi og Alþingi fréttir um að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um eitthvað þegar það liggur fyrir að engin formleg umfjöllun var um það á ríkisstjórnarfundi, þ.e. ekki á þeim forsendum sem hér er lýst í yfirlýsingunni, að það séu þarna ákveðnir annmarkar sem kalli á það að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og þess vegna sé það ákveðið af hálfu ríkisstjórnar.

Ég hef ekki langan tíma og ætla að vinda mér í þau atriði sem mig langar að vekja athygli á og ég vil ekki vera að tvítaka mikið eitthvað sem hefur komið fram hjá öðrum þingmönnum í dag. En nú er það þannig að fjármála- og efnahagsráðherra sendi Ríkisendurskoðun bréf þann 8. apríl þar sem þess er farið á leit við stofnunina að hún kanni og leggi mat á það hvort salan á Íslandsbanka hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Í svarbréfi Ríkisendurskoðunar sem barst sama dag kemur fram að stofnunin hafi „ákveðið að verða við framangreindri beiðni, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.“ Það kemur líka fram í svarbréfinu að ekki hafi verið ákveðið hvernig nákvæmlega þessi athugun verði afmörkuð, að hverju nákvæmlega hún muni snúa en samt er stofnunin þarna búin að ákveða að verða við þessari beiðni. Mér finnst að með þessu hafi athugunin og úttektin og uppgjörið á því sem gerðist í Íslandsbankasölunni farið í sérkennilegan farveg sem orki að mörgu leyti tvímælis. Í fyrsta lagi vegna þess að í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er ekki gert ráð fyrir því að það séu stjórnvöld sem eigi frumkvæði að athugunum Ríkisendurskoðunar. Í lögunum er að finna mjög skýr ákvæði um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis geti að eigin frumkvæði eða samkvæmt tillögu sem henni berst farið fram á að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um einstök mál eða málaflokka sem falla undir starfssvið hans.

Í lögunum er líka tekið fram að ef níu þingmenn óski eftir skýrslu ríkisendurskoðanda í þingsal þá gildi hið sama. Í lagatextanum sjálfum er hins vegar ekki að finna nein skýr ákvæði um að svona frumkvæði geti komið frá stjórnvöldum og það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að þetta er hugsað þannig. Hér finnst mér að við verðum að hafa það í huga að ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður Alþingis og fer í umboði Alþingis með eftirlit með fjárreiðum stjórnvalda og það samrýmist mjög illa þessu hlutverki að stjórnvöld sjálf, hinir eftirlitsskyldu aðilar sem heyra undir aðra grein ríkisvaldsins en Ríkisendurskoðun, séu að leitast við að hafa áhrif á það hvort og þá hvernig Alþingi og stofnanir þess, Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis, ræki þetta stjórnarskrárbundna eftirlitshlutverk sitt gagnvart stjórnvöldum sjálfum. Það er einfaldlega, eins og er lýst svo vel í þessum lögum um Ríkisendurskoðun, bara verkefni Alþingis að gæta að þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í lögum.

Mér finnst líka eitthvað orka tvímælis í þessum snörpu viðbrögðum Ríkisendurskoðunar eða þau komu mér aðeins á óvart vegna þess sem fjármálaráðuneytið er að biðja um að sé athugað. Talað er sérstaklega um góða stjórnsýsluhætti en staðreyndin er sú að eftirlit Ríkisendurskoðunar gagnvart stjórnvöldum í umboði Alþingis lýtur samkvæmt 43. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. laga nr. 46/2016 að fjárreiðum ríkisins. Það lýtur ekki að því hvort slík starfsemi stjórnvalda fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Slíkt eftirlit er nefnilega á hendi umboðsmanns Alþingis samkvæmt lögum um þá stofnun og eftir atvikum á höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á grundvelli þingskapalaga. Eins og athugun Ríkisendurskoðunar er afmörkuð í áðurgreindri tilkynningu, í raun fyrst frá fjármálaráðuneytinu og svo frá Ríkisendurskoðun, þá má velta fyrir sér hvort efni hennar falli að öllu leyti undir lögbundið starfssvið stofnunarinnar eða hvort það séu ekki einmitt atriði sem umboðsmaður Alþingis væri miklu betur til þess fallinn að leggja mat á. En þarna er í rauninni ráðherra með sínu frumkvæði búinn að búa þannig um hnútana að athugunin fer í ákveðinn farveg. Það gerist meðan það er bullandi pólitískur ágreiningur um það í hvaða farveg þetta eigi að fara hér á Alþingi. Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar er vísað til 2. mgr. 8. gr. laga um ríkisendurskoðanda. Þetta er gjaldtökuheimild. Þar segir orðrétt: „Þegar sérstaklega stendur á og nauðsynlegt er að ríkisendurskoðandi skoði eða geri úttekt á meðferð ríkisfjár í tilteknu máli eða á tilteknu sviði er honum heimilt að taka gjald fyrir.“

Þá vaknar spurningin hvort Ríkisendurskoðun ætli sem sagt að fara að taka gjald af fjármálaráðuneytinu. Ef maður skoðar svo lögskýringargögnin, greinargerðina sem fylgdi frumvarpinu sem varð að lögum um ríkisendurskoðanda, þá kemur fram um þetta tiltekna ákvæði er hugsað sem sérstakt úrræði þegar óvenjulegar aðstæður koma upp sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í starfsáætlun eða fjárhagsáætlun stofnunarinnar en rétt þyki að ríkisendurskoðandi athugi. Svo segir að gera verði ráð fyrir að ríkisendurskoðandi hafi sérstakt samráð við forsætisnefnd um slíkar athuganir. Ég veit ekki til þess að slíkt samráð sé farið af stað. Sem dæmi um tilvik sem ákvæðið ætti við er tilgreind sérstaklega athugun Ríkisendurskoðunar á fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Álftaness árið 2010. (Forseti hringir.) Þar var þetta gert með sérstöku samkomulagi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Ég held að til þess að skapa traust (Forseti hringir.) um þessa málsmeðferð alla þurfum við að fá svör um það hvort gerður verði (Forseti hringir.) sérstakur samningur við fjármála- og efnahagsráðuneytið í þetta sinn eða hvernig þessu verði hagað nákvæmlega.