Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur komið skýrt fram að ekki verður haldið áfram með söluna á meðan ekki er búið að velta við öllum steinum. Þeim mun mikilvægara er að við sameinumst um þær spurningar og fáum svör, að við veltum við öllum steinum. Ég ætla bara að ítreka það sem ég las upp áðan í ræðu varðandi markmiðin með áframhaldandi sölu: Að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu. Það höfum við vissulega gert og ég vil ganga lengra og get sameinast með hv. þingmanni um mikilvægi þess. Að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum, að stuðla að fjölbreyttu heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma. Þetta hefur okkur tekist. Við erum með eitt stærsta almenningshlutafélag á Íslandi í dag í kringum Íslandsbanka, sem hefur mikinn trúverðugleika á markaði. Við ætluðum að auka fjárfestingarmöguleika fyrir einstaklinga og fagfjárfesta og ekki síst að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga. Þetta eru stóru markmiðin. Þetta hefur okkur tekist og við þurfum að halda áfram.