Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langaði til að fara aðeins betur yfir það sem ég fjallaði stuttlega um í fyrri ræðu og í nokkrum andsvörum til að útskýra nánar hvað það þýðir að ráðherra þurfi að skoða einstök tilboð. Þarna eru ákveðnar skyldur sem ráðherra hefur af því að í lögum um sölumeðferð eignarhluta er það ákvörðun ráðherra, eftir að hann hefur lagt mat á þau tilboð sem Bankasýslan skilar til hans, hvort skrifa eigi undir samninga eða ekki. Nú er það svo að það er mjög skýrt í greinargerðinni með lögunum að það á einmitt sérstaklega við um tilboðsferli, að þar þurfi að skoða hvert eitt og einasta tilboð. Þegar það er almennt útboð og það ríkir jafnræði meðal allra þegar kemur að kaupum þarf ekki að skoða hvert eitt og einasta tilboð. Og þá kem ég að mikilvægu atriðið sem mig langar að reyna að útskýra: Þetta þýðir ekki að ráðherra prívat og persónulega taki upp rauða útstrikunarpennann og striki yfir: Nei, ekki þessi tilboðsaðili, nei, ekki þessi tilboðsaðili. Það er ekki þannig sem það er gert. Þetta þýðir að ráðherra er að sinna skyldum sínum sem ráðherra, ábyrgð sinni, stjórnsýsluskyldu, hann er að spyrja spurninga um öll tilboðin. Hann sér kannski eitt tilboð og segir: Þetta tilboð lítur ekki út fyrir að vera frá einhverjum sem er hæfur fagfjárfestir. Eða hann spyr jafnvel almennt: Eru örugglega allir á þessum lista hæfir fagfjárfestar? Er búið að skoða það nánar? Hann biður í raun stjórnsýslu sína um að sinna eftirliti með því rökstudda áliti sem Bankasýslan skilar gagnvart þeirri ábyrgð sem hann ber á því að skoða niðurstöðuna miðað við þau skilyrði og forsendur sem hann setti í upphafi.

Bankasýslan segir fyrst: Við erum til í að fara að selja. Ráðherra segir svo já eða nei og ef hann segir já þá setur hann ákveðnar forsendur og skilyrði fyrir sölunni: Ég vil að það sé selt til stærri eignaraðila. Ég vil að það sé selt til hæfra fjárfesta. Ég vil t.d. að það séu engin hagsmunatengsl eða neitt svoleiðis sem komi nálægt sölunni o.s.frv. Hann setur ákveðinn ramma sem Bankasýslan síðan framfylgir. En lögin eru sett upp á þann hátt að Bankasýslan skilar því síðan aftur til ráðherra til að hægt sé að meta það hvort þeim markmiðum var náð eða ekki. Þar á ráðherra að koma að og fullvissa sig um það. Hann gæti gert það persónulega ef hann vildi. Það er líklega ekkert rosalega gáfulegt en hann gæti gert það. Dómsmálaráðherra gerði það með hryllilegum afleiðingum í Landsréttarmálinu. En hann gæti gert það eða hann gæti beðið stjórnsýsluna sína um að svara þeim spurningum sem ráðherra hefur til að dekka ráðherraábyrgð sína, augljósum spurningum eins og: Er ég nokkuð að selja pabba mínum banka? Það ætti að vera augljós spurning af því að það eru svoleiðis atriði sem þarf að passa upp á í lögum um peningaþvætti og hryðjuverk, í siðareglum ráðherra, í stjórnsýslulögum varðandi vanhæfni.

Það sem er mikilvægt að átta sig á hérna er að ráðherra kemst ekki undan þeirri skyldu sem hann hefur gagnvart stjórnsýslulögum, að skoða niðurstöðu Bankasýslunnar á framkvæmd sölunnar. Annars væri ráðherra bara undirskriftarvél. Hann hefur hlutverki að gegna þarna. Ráðherra hefur hlutverk. Ef hann hefði ekki hlutverk væri hann einfaldlega bara blind undirskriftarvél sem við hefðum ekkert við að gera. Þá þyrftum við ekki ráðherra. En hann er skrifaður þarna inn í. Það er sérstaklega talað um ákvörðun ráðherra og lagatæknilega þýðir það bara mjög flókna hluti en mjög skýra um t.d. vanhæfi og vanrækslu. Við þurfum að hafa á hreinu að þegar við segjum að ráðherra hafi átt að skoða tilboðin þá er það í því samhengi.