152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Virðulegur forseti. Í ársbyrjun 2021 voru gerðar viðamiklar breytingar á skipulagi og stjórnsýslu við leit að leghálskrabbameini meðal kvenna. Strax kom í ljós að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Bara það að fá á því viðurkenningu var hins vegar þrautin þyngri og yfirvöld létu sig ekki muna um að koma með skýrslu inn í þingið á síðustu dögum vorþings 2021 til að reyna að hvítþvo málið. Nú eru sýnin óðum að koma heim og sem betur fer hvorki í flöskuskeytum eða frauðplastkössum, eins og brá fyrir í áramótaskaupinu, heldur með fagmennsku í fyrirrúmi. Í lok febrúar síðastliðins kynnti Læknafélag Íslands viðamikla skýrslu sem það lét gera um þessa skipulagsbreytingu. Í stuttu máli er sú skýrsla áfellisdómur yfir þessari skipulagsbreytingu. Um sama leyti kom út skýrsla frá embætti landlæknis um krabbameinsskimanir 2021. Þar er getið um tafir og hnökra. Þó finnst mér skorta nokkuð á dýpt í þeirri umfjöllun. Til dæmis er hvergi minnst á hver bar ábyrgð á þessum töfum og hnökrum. Skýrsla Læknafélagsins svarar því hins vegar að nokkru leyti. Þar má lesa m.a. að konur hafi í minna mæli en áður nýtt sér boð um skimun fyrir krabbameinum á árinu 2021. Eftir stendur áfram spurningin: Af hverju fór sem fór? Hvers vegna var ekki hlustað á raddir almennings og sérfræðinga? Ég tel að skýrsla Læknafélagsins kalli á viðbrögð hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og að verklag í þessu ferli verði skoðað á ný, ef það þarf að taka það fram, og dreginn verði af því nauðsynlegur lærdómur. Það hvíla ríkar skyldur á hæstv. heilbrigðisráðherra að krefja framkvæmdaraðila verkefnisins, sem hafa umsjón með því nú, um aðgerðaáætlun til að endurvinna traust sem glataðist í þessu ferli og ná til fleiri notenda þjónustunnar, nýrra sem fyrri. Það er mitt mat að skýrsla Læknafélagsins kalli á viðbrögð frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég tel að hann ætti að sýna frumkvæði í því að draga lærdóm af þessu ferli og sýna það í verki gagnvart notendum þjónustunnar og þeim sem starfa að henni.