152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú fer maí að ganga í garð og mikil spenna getur fylgt mánuðinum. Að mínu mati eru einna mikilvægustu viðburðirnir sem eiga sér stað Eurovision, það er sauðburður og það eru sveitarstjórnarkosningar. Umræðuefni mitt í dag eru sveitarstjórnarkosningarnar. Nú er fólk farið að undirbúa þær af fullum krafti og ég vil nýta tækifærið og þakka fólki fyrir sem er að gefa kost á sér til starfa fyrir sveitarfélagið sitt, bæði með framboðinu sínu og með utanumhaldi í kringum kosningarnar. Þetta er mjög mikilvægt starf og oft vanmetið. Sveitarfélög eru mikilvægar stjórnsýslueiningar og mikil ábyrgð fylgir því að stýra þeim. Eftir því sem nær dregur sveitarstjórnarkosningunum hafa margar athugasemdir komið fram varðandi ný kosningalög en þau voru samþykkt síðasta sumar. Við í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum haft vanhæfi kjörstjórnarmanns til umræðu. Þrátt fyrir tilraunir til að skýra út vanhæfi einstaklinga þá þarf að gera meira í þeim efnum. Ég hvet fólk til að skoða myndina sem er inni á kosning.is sem sýnir möguleg vensl kjörstjórnarmanna við frambjóðanda sem gera þá vanhæfa. Í fljótu bragði náði ég að telja 91 einstakling í kringum mig sem myndi teljast vanhæfur á einhverjum tímapunkti. Íslenskar fjölskyldur eru mjög fjölbreyttar og því get ég sagt ykkur að ég þekki ekki einu sinni alla sem teljast vanhæfir í kringum mig. Svo kemur líka til mismunandi túlkun fólks á vanhæfi og fjölskyldutengslum. Þetta þarf að vera skýrara. Þetta eru spurningar sem er mjög mikilvægt að vera búið að svara fyrir kosningar. Annars vil ég minna fólk á að kosningarnar eru 14. maí og ég hvet ykkur til að nýta kosningaréttinn.