152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ríkisendurskoðun kynnti fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í gær niðurstöður stjórnsýsluúttektar á geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Skýrslan er umfangsmikil enda af nógu að taka þar sem eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu eykst ár frá ári. Komum á heilsugæslu fjölgaði til að mynda um 91% á landsvísu, á meðan komum á sjúkrahús fækkaði um 24% á tímabilinu sem er til marks um það að því nærri sem þjónustan er fólki, því fleiri nýta sér hana. Skipulag geðheilbrigðisþjónustu er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að rétt þjónusta skuli veitt á réttum stað. Rauði þráðurinn í skýrslunni hlýtur að vera aðgengið að heilbrigðisþjónustu enda eru biðlistar um land allt alllangir. Til dæmis má nefna að 8–12 mánaða bið er eftir geðþjónustu heilsugæslu á suðvesturhorninu og allt að átta mánaða bið á Norðurlandi. Oftast er mannaflavandi helsta ástæða fyrir langri bið, jafnvel þótt virkum stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslum hafi fjölgað um 82% og stöður geðlækna hafi farið úr 1 í 8,8. 30% fjölgun einstaklinga á örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna geðraskana á árunum 2010–2020 er verulega umfram fjölgun íbúa á Íslandi á sama tímabili en þar er um að ræða 15% íbúafjölgun. Kostnaður við lífeyrisgreiðslur vegna geðraskana á árinu 2020 nam 26,6 milljörðum kr. Stjórnvöld verða að taka ákvörðun um að tryggja bætta geðþjónustu til að sporna gegn þessari þróun. Útrýma þarf innbyggðri mismunun og gráum svæðum í þjónustu. Skýrslan ber öll þess merki að átak hefur átt sér stað í geðheilbrigðismálum og ýmsar úrbætur gefið góða raun en vankantarnir við framkvæmd þjónustunnar eru einfaldlega of margir sem skyggja verulega á árangurinn. Það er tilefni til þess að kafa vel ofan í efnistök skýrslunnar enn frekar.