152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:19]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanni fyrir þetta andsvar og segja: Nei, það er ekki uppskipting á Stjórnarráðinu sem er meginástæðan fyrir því að verið er að fresta þessu máli. Það eru tilteknar nokkrar ástæður. Ég held reyndar að sú uppstokkun muni verða mjög heillavænleg fyrir börn á Íslandi og gera okkur kleift að grípa fyrr inn í þannig að við fáum færri barnaverndarmál en ella með nýju ráðuneyti mennta- og barnamála. En ég veit að ein af meginástæðunum fyrir því að verkefnið hefur verið flóknara en gert var ráð fyrir er sú að það er verið að skoða alvarlega hagkvæmnina að baki því að hafa tvö til þrjú umdæmisráð barnaverndar á landinu í heild sinni. Við undirbúning þessa verkefnis var gert ráð fyrir mun fleiri umdæmisráðum eða allt niður í 6.000 hvert svæði en menn vildu fara í það á vettvangi sveitarfélaganna að ræða möguleikann á því að hafa þau enn stærri og þar af leiðandi held ég að sú starfsemi verði enn faglegri. Það er eitt af því sem hefur tekið lengri tíma. Ég held að það sé mjög skynsamlegt og í anda markmiða þessara laga, sem er að auka fagþekkingu í barnavernd, að þessi umdæmisráð verði sem fæst. Ég held að það sé einmitt mikill hagur í því fyrir börnin að menn gefi sér þennan tíma ef það verður til þess að við náum að hafa færri umdæmisráð og samtalið á milli ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og Barna- og fjölskyldustofu leiðir til þess að við getum haft þau færri og stærri. Það eykur fagþekkinguna og setur börnin þar með meira í fyrsta sæti.