152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Traust er stutt og snaggaralegt orð en það felst ótal margt í því. Okkur stjórnmálamönnum er trúað fyrir því að fara með eigur almennings, selja þær með hag almennings að leiðarljósi, ákveða framkvæmdir og þar fram eftir götunum. Það er óhemju mikilvægt að við njótum trausts í okkar störfum. Eftir hrunið þá hvarf þetta traust gjörsamlega. Smám saman hefur það verið að byggjast upp aftur og ekki síst þegar mynduð var ríkisstjórn til að reyna að endurvekja það með breiðri samstöðu við litróf stjórnmálanna eins og það var kallað. Með vinnubrögðunum núna finnum við hins vegar að þetta dýrmæta traust almennings á störfum ráðherranna hefur beðið hnekki. Fólki er misboðið. Fólk úti um allt samfélag talar núna um bankasöluna. Fólk er sárt og fólk er hneykslað. Hvers vegna er fólki misboðið? Vegna þess að það kannast við vinnubrögðin. Það kannast við persónur og leikendur. Það horfir upp á leikreglurnar í þessari bankasölu sem minna okkur svo illilega á hlutina eins og þeir tíðkuðust árin fyrir hrun. Það horfir upp á eign almennings selda með afslætti til útvalinna vildarvina. Það horfir upp á náin tengsl fjármálaráðherra við kaupendur sem kaupa með afslætti í lokuðu útboði og horfir svo upp á ríkisstjórn og ráðherra að rjúka upp til handa og fóta þegar reiðialdan brýst út þegar nöfn kom í ljós sem stóð aldrei til að birta, þegar persónur og leikendur birtast. Þetta verður að hafa afleiðingar, frú forseti, því traust er ekki einungis dýrmætasta eign hvers stjórnmálamanns heldur líka íslenskra stjórnmála. Það á að vera verkefni okkar núna og okkar sem hér störfum að endurbyggja þetta traust.