152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Öll viðbrögð stjórnarþingmanna og ráðherra markast af því að halda lífi í ríkisstjórninni. Þau markast ekki af því að fá hið sanna og rétta fram í málinu. Þetta er risa klúður og fyrir okkar frjálslyndu hægri menn sem eru hér á þingi, sem styðja það að selja hlut ríkisins í fjármálakerfinu, eru þetta stórkostleg vonbrigði. En við verðum að horfast í augu við það að þá verðum við að nýta öll tækifæri til þess einmitt að byggja upp traust aftur. Ríkisstjórnin er búin að segja það sjálf að hún treysti sér ekki til þess að fara af stað í söluna. Þetta eru risa hagsmunir. Þetta eru 100 milljarðar sem við eigum inni í Íslandsbanka sem við getum ekki notað til að greiða niður skuldir, til þess að leggja ekki framtíðarskuldaklafa á kynslóðirnar okkar, börnin okkar, til þess að fara í innviðauppbyggingu. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að festa þetta, niðurnjörva þetta út af þessu klúðri og reynir núna að segja nei við því að reyna að byrja að byggja upp traust. Það er fyrsta skrefið til þess að við getum farið aftur í söluna á bönkunum. (Forseti hringir.) Það er fyrsta skrefið og það er nauðsynlega skrefið. Þið verðið að horfast í augu við það. (Forseti hringir.) Förum strax í það, spörum tíma og byggjum upp traust, (Forseti hringir.) endurvekjum traust til þess að við getum farið í þessa mikilvægu vegferð, (Forseti hringir.) til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og fara í innviðauppbyggingu.