152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:30]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Bara til þess að halda því til haga, af því að hv. þingmaður var að vitna til þess og eiginlega að reyna að draga það fram að þetta frumvarp væri fram komið vegna uppstokkunar ráðuneyta og það væri eiginlega aðalástæðan, og þar voru nefnd nokkur atriði sem hefðu þar áhrif, þá held ég að það sé kannski eitt atriði sem ekki var nefnt í greinargerðinni en er óhætt að segja hér, sem ég held að hafi líka talsverð áhrif. Það hefur verið unnið að því, held ég, af fullum heilindum, á sveitarstjórnarstiginu að því að innleiða þessar breytingar og menn hafa verið að skoða hagkvæmnina í því að hafa jafnvel tvö til þrjú umdæmisráð barnaverndar á öllu landinu. Hugsunin í frumvarpinu var 6.000 íbúar. Við sjáum það alveg ef við tökum landsbyggðina og deilum alls staðar niður í 6.000 að þá eru það ansi mörg umdæmisráð. Mér fannst sú tala alltaf dálítið lág, svo ég sé alveg heiðarlegur, en þetta fæddist í miklu samráði fjölda aðila. En þegar svona glittir jafnvel í að það sé hægt að ná samstöðu um að ganga lengra varðandi þá skilvirkni og annað í barnaverndarkerfinu þá finnst mér það vera eitthvað sem þurfi að skoða líka og verður örugglega skoðað sérstaklega í nefndinni.

Síðan vil ég segja, ef við tölum aðeins um ný ráðuneyti og skipan Stjórnarráðsins, að ég held einmitt að nýtt ráðuneyti mennta- og barnamála muni verða ótrúlega mikilvægt í því að draga úr til að mynda þörfinni fyrir þriðja stigs þjónustu. Ég finn það bara núna á fyrstu mánuðunum að það að tengja saman skólakerfið annars vegar og þennan félagsþjónustuanga hins vegar getur orðið akkúrat það sem hv. þingmaður var m.a. að tala um hér varðandi þjónustu í skólunum, vegna þess að menn hafa oft verið að hugsa svolítið í sílóum. Ég er alveg sannfærður um að þegar þetta verður skoðað þá er það akkúrat þar sem við þurfum að auka þjónustuna og það mun draga úr þörfinni á þriðja stigi samhliða. En ég tek undir með hv. þingmanni, við þurfum að ná niður biðlistunum á þriðja stigi og það er ekki eingöngu fjármagn sem vantar þar. Það er líka samtal og skipulagsbreytingar.