152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:39]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Það sem vakti fyrir mér var að rifja upp, vegna þess að mér finnst hollt að halda því til haga við hvert einasta tækifæri sem gefst, að þegar menn fara í svona rosalega mikla uppstokkun og þegar menn gera það með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru og við gagnrýndum mjög harkalega á sínum tíma, þegar menn tiltaka einhverjar kostnaðartölur, hvað þetta kosti, þá geta menn ekki tínt allt til. Menn geta auðvitað ekki séð allt fyrir en það er hægt að reyna að greina það og það var reynt. En að sjálfsögðu er úti um allt falinn kostnaður. Það liggur alveg í hlutarins eðli. Sumt af því verður hægt að greina eftir á en annað ekki. Og þó að við séum að tala um þetta mál núna þá á þetta við um mörg önnur mál og mörg önnur ráðuneyti og það á meira eftir að koma upp úr kafinu í því. En hryggjarstykkið í því sem ég var að reyna að halda til haga var bara nákvæmlega þetta: Við gagnrýndum það þegar þessi ríkisstjórn var mynduð hversu lítið var kallað eftir greiningu og rýni sérfræðinga á því hver áhrifin af þessari tilteknu uppstokkun yrðu, hversu heppilegt það yrði að hafa svona mikla uppstokkun t.d. Ég held að allir hafi verið tilbúnir til að kvitta upp á það að það getur verið vel réttlætanlegt að skipta Stjórnarráðinu upp með einhverjum tilteknum hætti þótt það hafi í för með sér aukinn kostnað á einhverju tilteknu sviði ef hins vegar heildarsýnin og áherslan sem er á bak við, það var t.d. talað um umhverfismál og annað í þeim dúr, sé eitthvert æðra markmið sem á að ýta undir. En þetta getum við auðvitað ekkert alltaf vitað fyrir fram.

En ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður var að segja, að það er falinn kostnaður úti um allt í þessari uppskiptingu Stjórnarráðsins og þetta er kannski eitt dæmi um það. Sumt munum við geta rakið beint til þessa (Forseti hringir.) en annað mun vera áfram einhver dulinn kostnaður en kostnaður engu að síður fyrir ríkið.