152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[19:16]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hingað upp og þakka hv. þingmanni fyrir góðar ræður hér í dag um þessi mál og greinilegt að hún þekkir til slíkra mála. Ég vil segja það af því að þingmaðurinn tók umræðuna sem við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vorum í aðeins lengra, um tölfræðina og hvað við erum að gera og hvernig við erum að gera þetta, að inni í farsældinni er hugsunin sú að gögn og mælaborð séu hjartað í því kerfi. Eitt er að hafa allar upplýsingarnar um þessa vanlíðan, um alls konar hluti sem er verið að safna hér og þar og alltaf verið að benda okkur á, hagsmunasamtök í málefnum barna benda á o.s.frv., en síðan þegar við förum að skipuleggja úrræðin sem við ætlum að grípa til til þess að aðstoða við þessar aðstæður þá þurfum við að vita hvað virkar og hvað virkar ekki. Þess vegna erum við að byggja upp þetta nýja mælaborð sem á að verða hjartað í þessari farsældarlöggjöf, á að verða stjórntækið sem á að stýra því hvað við gerum og hvað ekki, af því að eitt er að mæla hinn hagræna ávinning en svo er það að mæla vellíðunarávinninginn líka, hvernig börnunum líður, hvernig þeim gengur o.s.frv. og láta þetta tvennt tala saman. Í því sambandi verðum við að geta haldið utan um það í svona gagnakerfi og mælaborði. Tökum eitt af því sem hv. þingmaður var að vitna til áðan sem er vanlíðan. Ókei, hvaða úrræði virka gagnvart því? Getum við brugðist við? Er eitthvað í fari þessara barna að finna annars staðar, getum við keyrt saman breytur úr öðrum kerfum til að átta okkur á einhverju sem væri hægt að gera annars staðar til þess að draga úr vanlíðan þarna? Hvað áhrif hefur svefn? Hvað áhrif hafa tómstundir og fleiri þættir? Heyrðu, það eru úrræði sem er verið að nota norður á Akureyri sem virkar vel. Er það, virkar það vel? Hvernig vitum við það? Hvernig mælum við það? Hvernig mælum við árangurinn af því þar? Þetta er hugsunin. Þetta er ástæðan fyrir því að við byrjuðum á farsældinni. Það er mjög mikið af góðum gagnreyndum úrræðum (Forseti hringir.) og miklu fleiri sem við þurfum að byggja upp. En við sem ríki þurfum að hafa mælikvarðann á hvað virkar og hvað ekki.

Ég vil síðan bara þakka hv. þingmanni fyrir góðar ræður í dag. (Forseti hringir.) Ég hlakka til að fylgjast með henni í umræðum um þessi mál áfram.