152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[19:18]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. barnamálaráðherra fyrir andsvarið. Já, ég er sammála, það þarf að mæla allt. Við vitum ekki hvort hlutir virka nema við mælum þá. Það er bara þannig. Það er til fullt af gagnreyndum úrræðum, bæði erlendis og sem hafa verið innleidd hér með misgóðum árangri og svo ekki fjármögnuð. Það hefur ýmislegt gengið á. En ég bara fagna því að það sé verið að vinna að því að búa til úrræði eða innleiða úrræði annars staðar frá þar sem við erum væntanlega ekki að fara að finna upp hjólið alltaf, en auðvitað líka að gera úrræði fjölbreytt og búa til úrræði sem henta mismunandi hópum. Mér finnst líka mikilvægt að huga að börnum og ofbeldi í því samhengi og einnig að taka svolítið hugsunina með að börn séu á sakaskrá og fleira og skoða hvaða áhrif þetta getur haft t.d. á sjálfsmynd og annað þar sem þetta er ekki það sem við viljum stefna að í nútímasamfélagi. Við vitum að aðferðir virka sem eru meira á þann veg að við byggjum upp einstaklinga og að einstaklingar séu ekki á sakaskrá þegar þeir eru 17 ára. Það getur haft svakaleg áhrif á barn að vera á sakaskrá og ofbeldisbrotin einnig. Ég held að það þurfi að leggjast í heildarvinnu, sem er verið að gera, og ég vona að það verði teknar margar fagstéttir með og haft mikið samráð við alls konar fagstéttir. — En ég vil bara þakka fyrir þessa umræðu í dag.