152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:32]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er nú vanur að vera í framboði en finna fyrir þessari miklu eftirspurn sem er hér af hálfu hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar er auðvitað eitthvað sem hlýjar manni um hjartaræturnar. Eins og menn þekkja þá náði ég ekki að mæla fyrir þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um fiskeldi og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni að það var samið um það að ég myndi klukkan tvö í dag halda hér stutta ræðu um þetta en klukkan er örugglega tvö einhvers staðar annars staðar þannig að það er bara sjálfsagt að halda eina stutta ræðu og taka þátt í samtalinu um þetta mál.

Megintilgangur frumvarpsins er að koma til móts við sjónarmið Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, vegna leyfisveitinga til bráðabirgða í fiskeldi. Frumvarpið var samið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í nánu samstarfi við matvælaráðuneytið. Áform um lagasetninguna og drög að frumvarpi voru kynnt til umsagna í samráðsgátt stjórnvalda og í samráðskafla greinargerðar er greint frá umsögnum og viðbrögðum við þeim.

Þann 14. apríl 2020 birti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) bráðabirgðaniðurstöðu sína í máli vegna veitingar rekstrarleyfa til bráðabirgða og veitingar tímabundinna undanþága frá starfsleyfi til reksturs fiskeldisstöðva. Bráðabirgðaniðurstöður ESA lúta að athugasemdum vegna tiltekinna ákvæða í lögum um fiskeldi og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og að þau samræmist ekki tilskipun Evrópusambandsins um umhverfismat framkvæmda eins og hún hefur verið túlkuð af Evrópudómstólnum. Atvikin sem lágu til grundvallar bráðabirgðaniðurstöðu ESA voru með þeim hætti að tímabundnar undanþágur fyrir skertri starfsemi höfðu verið veittar tveimur rekstraraðilum í fiskeldi einkum til að koma í veg fyrir óafturkræft tjón á verðmætum. Forsendur fyrir veitingu tímabundinna undanþága samkvæmt lögum um fiskeldi og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir voru að komin væri fram umsókn um varanlegt starfsleyfi og að annmarkar á mati á umhverfisáhrifum yrðu lagfærðir í samræmi við þá ágalla sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála benti á í úrskurðum sínum nr. 3/2018 og nr. 5/2018 þar sem starfsleyfi viðkomandi aðila voru felld úr gildi.

Samkvæmt leiðbeiningum ESA er samkvæmt tilskipun ESB um umhverfismat framkvæmda heimilt að hafa slíkar bráðabirgðaráðstafanir í lögum en afmörkuð skilyrði þurfa einnig að vera tilgreind sérstaklega í lögunum. Tilskipunin fjallar ekki með beinum hætti um afleiðingar þess að framkvæmd fari af stað á grundvelli umhverfismats sem síðar reynist gallað en í framkvæmd Evrópudómstólsins hafa mótast tilteknar lágmarkskröfur sem ESA hefur bent á og tekið er mið af í þessu frumvarpi.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða aðallega heimildir til bráðabirgðaráðstafana í tilvikum þar sem leyfi hefur verið fellt brott vegna annmarka á umhverfismati. Í því felst að viðkomandi framkvæmd hafi áður uppfyllt lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana að mati stjórnvalda og hlotið tilskilin leyfi að undangenginni lögboðinni málsmeðferð. Í frumvarpinu er skýrt tekið fram að heimildir til bráðabirgða verði aðeins veittar að því tilskildu að gerðar verði allar nauðsynlegar lagfæringar á umhverfismati sem nauðsynlegar eru til að umhverfismatið uppfylli kröfur samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Endurskoðað umhverfismat skal ná til upphafs framkvæmdar. Þá verði heimildir til bráðabirgða einungis veittar í sérstökum undantekningartilvikum, svo sem til að koma í veg fyrir sóun á verðmætum eða slys eða ef um er að ræða framkvæmd í þágu almannahagsmuna og brýn þörf er á skjótri afgreiðslu. Gert er ráð fyrir aðkomu almennings að ákvörðunarferlinu auk þess sem ákvörðunarvald um veitingu heimildar til bráðabirgðaráðstafana færist frá ráðherra til viðkomandi stofnunar, þ.e. Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar og sæta þar með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með frumvarpinu eru auk áðurgreinds gerðar tillögur að tilteknum breytingum á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Er annars vegar um að ræða tillögur til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum laga um fiskeldi og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og hins vegar eru gerðar tillögur til aukins skýrleika eða lagfæringa tiltekinna annmarka. Þá eru lagðar til breytingar á VI. kafla A laga um hollustuhætti og mengunarvarnir um niðurdælingu koldíoxíðs í jarðlög. Þær breytingar eru tilkomnar vegna samtals íslenskra stjórnvalda við eftirlitsstofnun EFTA um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um geymslu koltvísýrings í jörðu.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.