152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:45]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvaðan hv. þingmaður kemur þegar hún leggur þetta upp með þessum hætti. Það liggur fyrir af hverju við erum að gera þetta. Það er alveg skýrt. Og af hverju eru menn búnir að setja þessar reglur og lög? Jú, það er til þess að vernda lífríkið og þegar menn fara út í hluti eins og í þessu tilfelli fiskeldi eða hvað annað þá sé það gert með þeim hætti að það verði sem allra minnstur skaði af. Það sem gerist og hv. þingmaður vísar hér til, sem enginn hér í þessum sal, held ég, að hafi komið að, þ.e. menn gerðu þetta ekki með fullnægjandi hætti og ESA kemur með sínar athugasemdir, þá komum við aftur með frumvarp til þess að koma til móts við athugasemdir ESA. Þannig liggur í málinu. Ef hv. þingmaður vill að ég ræði hér hvað mér finnst skipta máli þegar kemur að lífríkinu þá er það alveg sjálfsagt. Markmiðið með þessu er að uppfylla þau skilyrði og þær athugasemdir sem komu frá ESA. Ef það kemur í ljós í meðförum málsins að það séu einhverjir annmarkar á því þá bætum við bara úr því. Til þess er leikurinn gerður. Ef við gerum það ekki þá þarf sá sem hér stendur eða sá sem kemur á eftir mér að fara í gegnum sama hringinn. Ég held að okkar tíma sé miklu betur varið í aðra hluti, með fullri virðingu fyrir því að koma með frumvarp til að koma til móts við athugasemdir vegna þess að frumvarpsgerðin og lagasetningin á sínum tíma var ekki í samræmi við það sem lagt var upp með.