152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að reyna að átta mig á því um hvað þetta mál snýst og ég verð bara að segja eins og er, þetta er heimild til bráðabirgðaráðstafana. Það stendur skýrt á bls. 7, um tilefni og nauðsyn lagasetningar, að það sé verið að bregðast við kvörtun sem hafði verið sent til ESA vegna veitingar rekstrarleyfa til bráðabirgða og veitingar tímabundinna undanþága frá starfsleyfi til reksturs fiskeldisstöðva. Hérna er verið að búa til heimild til bráðabirgða. Af hverju til bráðabirgða? Það hlýtur að vera til að komast fram hjá einhverju. Og fram hjá hverju? Það er umhverfismat. Hverjir tapa á því? Það er náttúran og þeir aðilar sem eru á viðkomandi svæðum. Ég er búinn að fara í dag í gegnum fréttir af fiskeldi og það hefur stórlega aukist laxalús á Vestfjörðum. Hvernig hefur verið brugðist við þar? Jú, með eitrun sem hefur valdið því að það er farið að skaða lífríki humars og rækju og örugglega fleiri tegunda. Af hverju stöndum við ekki bara með náttúrunni? Það verður ekkert leyfi gefið út fyrr en búið er að uppfylla nákvæmlega alla staðla þannig að það sé alveg á hreinu að náttúra njóti fulls vafa og það sé ekkert verið að ganga á hennar hlut. Við eigum að varast það sem hefur verið að ske í Noregi og hversu mengandi fiskeldi í sjó er orðið. Þetta er, myndi ég segja, einna mest mengandi iðnaður sem við erum með í dag upp á lífríkið að gera og okkur ber skylda til þess að vera ekki að gefa út neitt til bráðabirgða eða eitthvað svona framhjáhlaup heldur bara stoppa þetta. Það verður bara fullt leyfi og gengið frá öllu og það sé allt á hreinu áður en eitthvað er gefið út.