152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:52]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir hans andsvar og mér finnst hann vera frekar skýr þegar kemur að þessu. Hann hefur bara mjög miklar áhyggjur af fiskeldi í sjó og er ekkert einn um það. Ég get vel skilið þau sjónarmið. En í þessu tilfelli, umgjörðin sem er til staðar, hún mun ekki koma í veg fyrir eða það getur enginn lofað því að það muni ekki verða neinir neikvæðir hlutir í tengslum við fiskeldið, jafnvel þótt þetta mál hefði verið með þeim hætti að ESA gerði ekki neinar athugasemdir við það. Það er ekki svo gott. Það lá alveg fyrir og það var mjög mikil umræða um það þegar menn fóru af stað með fiskeldið að við værum að taka áhættu, sumum fannst það of mikil áhætta, sumir töldu hana ásættanlega, þegar við værum að fara út í fiskeldi í sjó. Það er bara sérumræða. Ég get alveg skilið áhyggjur hv. þingmanns þegar kemur að fiskeldi í sjó. Það hefur verið stefna stjórnvalda að hafa eins strangar reglur og getur orðið um þessa starfsemi og það sama á við um vini okkar Norðmenn. Ég veit ekki til þess að þeir haft neina aðra nálgun heldur en þá að hafa mjög strangar reglur. En þeir hafa samt sem áður lent í miklum erfiðleikum og við höfum alveg séð slys líka hér hjá okkur. En í þessu tilfelli snýst þetta um umgjörðina um þetta regluverk sem við þekkjum og við innleiðum út af samstarfi okkar í EES, að það allt sé gert rétt. Svo er það bara önnur umræða hvort við viljum ganga lengra og viljum ekki sjá fiskeldi í sjó. Það er önnur umræða. Mér finnst hins vegar jákvætt þegar við ræðum þetta hér almennt að við sjáum að fiskeldi á landi hefur gengið vel og vonandi mun það ganga vel. Það er í það minnsta ekki sama áhætta þar þó að hún sé kannski einhver önnur í þeirri atvinnugrein.