152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um fiskeldi og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, heimildir til bráðabirgðaráðstafana. Það eru þessar bráðabirgðaráðstafanir sem eru svolítið skrýtnar og eiga að hringja viðvörunarbjöllum vegna þess að við eigum aldrei, þegar um náttúruna er að ræða, að vera með einhver bráðabirgðaákvæði. Það á að vera alveg á hreinu að náttúran á alltaf að njóta alls vafa. Á bls. 9 í frumvarpinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Landvernd telur að eins og áformunum sé lýst sé vandséð hvernig boðaðar breytingar muni koma til móts við það sem ESA telji ámælisvert. Skýrt sé að það sé brot á EES-reglum að veita leyfi til framkvæmda eða starfsemi sem heyri undir lög um umhverfismat án þess að gilt umhverfismat hafi farið fram. Ef tillagan verði að lögum verði leyfisveitendum heimilt að veita leyfi til bráðabirgða ef í ljós komi að umhverfismat sé gallað. Muni það að öllum líkindum leiða til þess að framkvæmdaraðilar muni í auknu mæli skila inn illa unnu og ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að leyfisveitendur veiti þeim leyfi til bráðabirgða án umhverfismats. Þegar starfsemi sé hafin, fólk tekið til starfa og búið sé að valda óafturkræfum umhverfisspjöllum yrði erfitt að afturkalla leyfin. Þess vegna sé afar brýnt að koma í veg fyrir heimild til þess að veita bráðabirgðaleyfi án þess að fullgilt umhverfismat hafi farið fram.“

Ég tek undir þessar áhyggjur, ég verð bara að segja alveg eins og er. Okkur ber að láta allar viðvörunarbjöllur hringja þegar um er ræða náttúruverndarlög og sérstaklega þegar við erum að tala um viðkvæma náttúru. Við vitum núna mun meira um áhrif fiskeldis á náttúruna og við sjáum þau gífurlegu áhrif og eyðileggingu sem það hefur haft og þá sérstaklega á fiskstofna. Við erum t.d. að tala um laxveiðar í ám og síðan þau óafturkræfu umhverfisáhrif sem það hefur haft. Eins og ég benti á í andsvari við ráðherra þá hef ég verið að skoða áhrifin af fiskeldinu og laxalúsina sem er að valda gífurlegu tjóni. En það sem er kannski enn þá meira áhyggjuefni er eiturefnin sem notuð eru til að ráðast á laxalús og valda óafturkræfum áhrifum á náttúruna. Þau eru talin vera ein aðalástæðan fyrir því að rækjustofninn er algerlega hruninn í Noregi. Kannski ættum við að fara að átta okkur á því hvaða áhrif sjókvíaeldi hefur haft á bæði humarstofninn, rækjustofninn og líka á krabbadýr, sérstaklega krabbafló, sem er mjög viðkvæm lífvera í þessu samhengi.

Síðan er annað sem kemur skýrt fram á bls. 10 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Náttúruverndarfélagið Laxinn lifir og Náttúruverndarsamtök Íslands benda á að þrátt fyrir að lagt sé til að heimild Matvælastofnunar verði bundin við „sérstök undantekningartilvik“ sé áfram hætta á því að heimildin verði í reynd meginregla fremur en undantekning. Í því sambandi þurfi að hafa í huga að sjaldgæft sé að leyfi séu felld úr gildi vegna annmarka á umhverfismati.“ — það er greinilega eitthvað sem er mjög sjaldgæft — „Eðli málsins samkvæmt muni því tiltölulega fá tilvik koma upp sem fallið geti undir heimildina. Eigi beiting heimildarinnar ekki að verða meginreglan um þau tilvik sem undir hana geti fallið verði því að afmarka með skýrari hætti en gert sé í frumvarpinu hvers konar tilvik geti fallið undir hana.“ — Náttúruverndarsamtökin telja þetta orðalag ekki vera nógu afgerandi.

Áfram segir:

„Þótt úrbótum á annmarka á umhverfismati verði eðli málsins samkvæmt ekki lokið fyrir umsókn og útgáfu bráðabirgðaleyfis hafi það verulega þýðingu hvort mat á áformum umsækjanda um slíkar úrbætur skuli fara fram fyrir eða eftir útgáfu leyfisins. Fari matið fyrst fram eftir að leyfi hafi verið gefið út og þá sem mat á því hvort bráðabirgðaleyfishafi uppfylli þau skilyrði sem leyfi hans eru sett, bjóði það hættu á sniðgöngu heim, enda geti umsækjandi í því tilviki skotið réttaráhrifum ógildingarúrskurðar á frest og haldið áfram framkvæmd eða mengandi atvinnustarfsemi sinni án þess að hefjast fyrst handa við að bæta úr því sem áfátt hafi verið í umhverfismati.“

Bara þetta er nóg til að hringja öllum viðvörunarbjöllum og við eigum þá að hugsa okkur um og spá í það hvort nokkur þörf sé á því að veita þetta bráðabirgðaleyfi. Ef þetta bráðabirgðaleyfi er ekki til staðar þarf fullt leyfi. Sú staða hlýtur að vera betri en að vera með eitthvert plan B sem getur valdið því að einhver komist fram hjá hlutunum.

Náttúruverndarsamtökin segja líka, með leyfi forseta:

„Ekki sé næg afstaða tekin til þess hvort og þá að hvaða marki vikið sé frá almennum reglum um meðferð slíkra ákvarðana. Betur færi á því að skýr afstaða til þessa atriðis kæmi fram í texta ákvæðisins. Þá gera náttúruverndarsamtökin tillögu að breyttu orðalagi 15. gr. frumvarpsins. Að lokum lýsa náttúruverndarsamtökin þeirri afstöðu gagnvart frumvarpinu að með því sé dregið úr hvata fiskeldisfyrirtækja til að vanda til verka við umhverfismat og gangi það þannig gegn því grundvallarsjónarmiði reglna um umhverfismat að slík áhrif séu metin fyrir fram.“

Við vitum núna meira um laxeldi í sjó og við eigum að stíla inn á það að færa þetta upp á land. Við ættum, ef við hefðum vit á því og stæðum með náttúrunni, að stöðva strax útgáfu allra leyfa í sambandi við eldi í sjó þangað til við erum búin að komast að því hvaða óafturkræfu skemmdum þessi starfsemi veldur í náttúrunni. Okkur, þessari kynslóð, ber skyldu til að reyna að skila náttúrunni til komandi kynslóða í eins góðu ástandi og við tókum við henni en það er því miður alveg á hreinu að við munum ekki gera það. Við höfum verið gífurlegir umhverfissóðar og því miður virðist það alltaf vera fjármagnið sem ræður för; því meiri gróði, þeim mun fleiri virðast undantekningarnar vera og þeim mun meira er vegið að náttúrunni. Eftir því sem gróðinn er meiri, þeim mun meiri tilhneiging virðist vera til að valta yfir náttúruna af því að gróðinn er það eina sem blífur og það er hann sem skapar fjármuni og auðæfi til viðkomandi svæða. Við vitum að eins og staðan er í dag er stærstur hluti þess laxeldis sem fer í sjó á Íslandi í eigu Norðmanna þannig að það eru í sjálfu sér einhverjir smáaurar sem falla til þeirra staða sem eru að þjónusta iðnaðinn. Við sitjum hins vegar uppi með mengunina og þeir sem framkvæma virðist ekki bera ábyrgð þar og allra síst ef við ætlum að fara að gefa þeim einhver bráðabirgðaleyfi til að gera hluti, þá erum við komnir á slæman stað. Ég vísa líka til þess að það hefur sýnt sig í Bandaríkjunum, þar sem var laxalús, að leturhumar varð fyrir gífurlegu tjóni, varð fyrir bæði stökkbreytingum og útlitsgöllum. Við höfum séð fiska í eldi útlitsgallaða og illa farna og síðan sjáum við að það eru ýmsir sjúkdómar sem hrjá þá. Ég segi fyrir mitt leyti að ég vildi óska þess að við værum ekki að ræða það hérna að veita heimild til bráðabirgða heldur værum við hreinlega að ræða það og koma því þannig fyrir að við værum virkilega að taka á þessu og værum að reyna allt sem við gætum til að lágmarka þann skaða sem fiskeldi í sjó veldur náttúrunni, að við værum hreinlega að banna það. Ég held að það sé næsta skref og það verði í framtíðinni talið eitt af því versta sem við höfum gert, að leyfa þetta óhefta fiskeldi í sjó.

Ég skil líka þá sem eru að berjast með kjafti og klóm fyrir því að ekki verði settar upp sjókvíar á Seyðisfirði, í firði þar sem eru engir straumar. Mengunin af svona starfsemi getur hreinlega drepið allt líf í viðkomandi firði, bara einn, tveir og þrír. Við megum ekki taka sénsa og við eigum ekki að gera það. Við eigum að vanda til verka og þar af leiðandi væri langbest að við byrjuðum á því að segja: Heyrðu, við veitum engin bráðabirgðaleyfi. Við tökum okkur til núna og setjum bara lög um að stöðva þetta. Við komumst að því hversu mengandi og slæmt þetta er fyrir náttúruna svo við færum þetta upp á land. Reynt hefur verið að sýna fram á að allt sem kemur frá landeldi, fæðið, vatnið, sé hægt að nýta til góðra verka. Ég held að það sé framtíðin og það er betra, eins og ég segi, að gera minna og gera það betur.

Svo er annað sem einhver benti á að væri stórfurðulegt að við Íslendingar skulum ekki vera búnir að gera fyrir löngu og það er að einbeita okkur að bleikjunni. Þar værum við með þvílíkt forskot og miklu verðmætari fisk en nokkurn tímann laxinn, miklu betri fisk, miklu heilnæmari fisk, bara betri á allan hátt og þar værum við í sérstöðu. Þar gætum við virkilega tekið okkur á og sýnt hvers við erum megnug. Það er eldi sem væri uppi á landi, allt uppi á landi, og við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því, held ég, að við værum að spilla náttúrunni í því.