152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:45]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil samt sem áður leiðrétta ákveðinn grundvallarmisskilning. Fyrirtæki verða að fá umhverfismat. Það liggur fyrir. Það getur hins vegar gerst, þó að það gerist sjaldan, að það sé kært og það hafi verið einhverjir annmarkar á umhverfismatinu. Það er ekki þannig að umhverfismatið sé afgreitt á skrifstofu ráðherra. Við þekkjum að það er mikill ferill sem stofnanir taka þátt í. Síðan getum við ekki útilokað að þessi verk, frekar en önnur mannanna verk, hafi einhvern ágalla og eitthvað hafi komið upp. Þá, við sérstakrar aðstæður, strangar aðstæður og samkvæmt ströngum skilyrðum, er hægt að veita bráðabirgðaleyfi á meðan menn uppfylla umhverfismatið. Hv. þingmaður er örugglega 50 sinnum búinn að segja að ráðherra geri það. Frumvarpið gengur út að ráðherra getur ekki gert það, eins og ég fór hér yfir. Hv. þingmaður er margoft búinn að segja að ráðherra geti veitt bráðabirgðaleyfi þó að hv. þingmaður viti að í frumvarpinu stendur að það fari frá ráðherra til Umhverfisstofnunar. Það er einfaldlega ekki rétt að halda því fram að þetta gangi út á það að fara fram hjá einhverjum EES-reglum. Það er svo sannarlega ekki uppleggið. Síendurteknar fullyrðingar hv. þingmanns um að ráðherra geti veitt bráðabirgðaleyfi — það vald er ekki gefið ráðherra ef þetta frumvarp verður samþykkt. Þvert á móti tekur það það vald frá ráðherranum.