152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Suðurk., Oddnýju G. Harðardóttur, kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég vil fá að draga hér upp nokkrar staðreyndir. Í gær var fjórum kennurum Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi sagt upp störfum. Þar var kastað fyrir róða 155 ára starfsreynslu í garðyrkju og skógrækt. 69 ára starfsreynsla við Garðyrkjuskólann er ekki meira metin en þetta. 120 nemendur eru í óvissu. Það er þyngra en tárum taki hvernig stjórnvöld hafa leyft sér að láta þennan mikilvæga skóla og þetta mikilvæga nám verða hornreka í íslensku menntakerfi. Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Skóli sem við getum rakið allt aftur til ársins 1936. Ég bý í nálægð við þennan skóla og garðyrkja er og hefur alltaf verið alltumlykjandi í Hveragerði og verið ein af aðal atvinnugreinum á Suðurlandi. Ég hef reynt af öllum mætti að skilja og setja mig inn í stöðu garðyrkjunáms á Íslandi. Ég hef verið í sambandi við rektor Landbúnaðarháskólans, skólameistara FSU, ráðherra menntamála, ráðherra háskóla, ýmsa aðra ráðherra, kennara við skólann, starfsmenn skólans, sveitarstjórnarfólk á öllu Suðurlandi og síðast en ekki síst nemendur. Allir þingmenn Suðurkjördæmis hafa sett sig vel inn í málið og standa einhuga að baki skólanum. Til merkis um það lögðu allir þingmenn kjördæmisins utan Framsóknar fram þingsályktunartillögu um sjálfstæði skólans. Það er nauðsynlegt að renna styrkum stoðum undir Garðyrkjuskólann sem sjálfseignarstofnun með þjónustusamning við ríkið. Við megum ekki láta það gerast (Forseti hringir.) að garðyrkjunám á Íslandi sé að líða (Forseti hringir.) undir lok.