152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

lengd þingfundar.

[15:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kemur upp sem sniðugi karlinn. Það er gott að honum líður vel. En þannig er mál með vexti að annar stjórnarflokkurinn, sem er búinn að boða félagsfund í kvöld, boðar að allur þingflokkurinn mæti ásamt formanni flokksins sem ætlar að gera grein fyrir því hvernig stendur á því að hæstv. fjármálaráðherra seldi pabba sínum almannaeign á undirverði. Hinn flokkurinn er með félagsfund þar sem formaður þess flokks og aðrir þingmenn ætla að mæta. En hér á Alþingi eiga þingmenn að mæta á fundi þegar þeir eru haldnir samkvæmt þingsköpum. Það er ekki val. Við eigum að vera hér þegar það eru þingfundir. Okkur ber að mæta á þingfundi og það er þess vegna sem er verið að vekja athygli á þessu. Það er mjög eðlilegt að stjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) þurfi að halda krísufundi með sínu fólki, enda baklandið brjálað. (Forseti hringir.) En til hvers að vera að halda uppi einhverjum þingfundi ef þau ætla ekki að vera hér?