152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[17:06]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alls ekki mótfallin þessu frumvarpi, það er ekki þannig. Ég er bara mjög oft hugsi yfir öllum hindrununum sem settar eru fyrir, eins og ég segi, venjulegt launafólk, venjulegt fólk, venjulegar fjölskyldur og alla þá hringi sem þær þurfa að hoppa í gegnum til þess að eiga eðlileg viðskipti sem eru bara partur af daglegu lífi. Mér finnst stundum að þessum kröftum sé beint í rangar áttir eins og við sjáum t.d. í nýlegri sölu á Íslandsbanka þar sem Bankasýslan taldi sig ekki hafa umboð til að fá að vita hvernig þetta yrði fjármagnað og vissi jafnvel ekki nákvæmlega alltaf hverjir voru að bjóða í. Það er þetta sem er alvarlegt og það er þarna sem virkilega þarf að koma inn, hjá stórtækum aðilum. En í staðinn virðist rosalega mikill kraftur fara í, eins og hv. þingmaður nefndi, einhverjar 20.000 kr. 20.000 kr. eru ekki miklir peningar í dag og ef það er hægt að kaupa einhvern fyrir 20.000 kr., ja, við skulum við bara orða það þannig að þá selji viðkomandi samvisku sína mjög ódýrt. Það var þetta sem mig langaði til að koma að, að þar sem þetta skiptir virkilega máli eins og hvað varðar eigendur banka, þar er undanþága.