152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal vera afdráttarlaus með það til að byrja með að ég tel að aðrar leiðir verði að vera í boði, öruggari leiðir. Ég efast um að það sé rétt hjá hv. þingmanni að meiri hluta þeirra sem sækja um hæli í Evrópu hafi verið vísað til baka. Það hefur stundum verið reynt en oft virðist það ganga erfiðlega. Ég vísa aftur í dæmið um Bretland og flóttamennina sem hafa jafnvel fengið hæli í Frakklandi en vilja frekar freista gæfunnar í Bretlandi. Það hefur reynst gríðarlega erfitt, nánast ómögulegt, fyrir bresk stjórnvöld að senda þá aftur til Frakklands, hvað þá eitthvað annað. Þess vegna fara Bretar nú þessa leið með þessa móttökustöð. Með því einfaldlega að opna á að menn komi og fái jafna þjónustu, sama á hvaða hátt þeir koma, er verið að búa til mjög hættulegan hvata og verið að auglýsa glæpastarfsemina meira en við ættum að gera og svo sannarlega meira en dönsk stjórnvöld telja forsvaranlegt.