152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Í þessari fyrstu ræðu minni við 2. umr. þessa máls vil ég koma inn á kostnaðarþætti þess að nokkru marki og afleidd áhrif. Ég vil samt byrja á því að gera ákveðnar athugasemdir við það, eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir sagði í andsvari við mig rétt á undan, að mat á áhrifum frumvarpsins á persónuvernd hafi enn ekki verið framkvæmt. Ég vil gera athugasemdir við að staðan sé þannig núna þegar við erum í 2. umr. um þetta mál. Málið gekk til nefndar fyrir töluvert löngu og hafði þá verið heilt ár í meðförum í ráðuneytinu frá því það var lagt fram á síðasta þingi. Athugasemdirnar sem ég las upp áðan, úr umsögn Persónuverndar við frumvarpið, voru lagðar fram í fyrra. Um er að ræða umsögn frá 18. febrúar 2020. Það er raunar þarsíðasta þing en ekki síðasta þing eins og ég sagði í andsvari mínu áðan, svo að ég leiðrétti það.

Í umsögn Persónuverndar frá 18. febrúar 2020 segir, með leyfi forseta:

„Ekki verður séð að mat á áhrifum frumvarpsins á persónuvernd hafi verið hluti af almennu áhrifamati í tengslum við samþykkt þess, sbr. hins vegar 10. mgr. 35. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.“

Áfram segir:

„Persónuvernd telur að nauðsynlegt sé að framkvæma slíkt mat af hálfu löggjafans, meðal annars með hliðsjón af þeim athugasemdum sem stofnunin hefur gert við frumvarpið. Forsendur matsins og niðurstöður þess þyrftu að koma fram í lögskýringargögnum.“

Það er eiginlega enn meiri ástæða en ég taldi áðan til að gera athugasemd við það að þetta mat hafi ekki enn verið unnið, þ.e. þegar horft er til þess að þessi athugasemd er frá 150. löggjafarþingi, dagsett 18. febrúar 2020. Ráðuneyti málaflokksins hefur sem sagt haft rúm tvö ár til að framkvæma það mat sem Persónuvernd gagnrýnir að ekki hafi átt sér stað í byrjun árs 2020. Hvers lags færibandavinna er þetta og sleifarlag hjá ráðherra í þessum efnum?

Ég veit að þingmenn Pírata hafa áhyggjur af þessum málum og ég trúi því auðvitað og treysti að því verði fylgt eftir að þetta mat eigi sér stað. Ég verð hins vegar að gagnrýna ráðherra málaflokksins sem leggur frumvarpið fram. Í inngangi greinargerðar segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er samið í félagsmálaráðuneytinu.“ — Hvað sem það nú heitir í dag. Það heitir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, þetta lærist nú vonandi á endanum. — „Frumvarpið var lagt fram á 150. löggjafarþingi og á 151. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er að mestu leyti óbreytt frá fyrri þingum.“

Efnislega segir í inngangi greinargerðar með frumvarpinu, eins og það liggur fyrir núna, að frumvarpið sé að mestu leyti óbreytt frá fyrri þingum. Ekki er hægt annað en að gera athugasemd við að það sé staðan þegar jafn skýrar athugasemdir koma fram frá Persónuvernd í febrúar 2020, þ.e. að ráðuneytinu hafi ekki dugað tveggja ára svigrúm til að framkvæma þetta mat.

Þetta er nú það sem ég vildi sagt hafa í byrjun um þetta atriði sérstaklega. Það vakti mig til umhugsunar þegar hv. þingmaður Pírata taldi ekki tilefni til þess að gera breytingartillögur er lytu að athugasemdum er snúa að persónuvernd í frumvarpinu. Ég veitti því þá athygli að þetta atriði er með þessum hætti og væri áhugavert að fá skýringar á því, þótt seint sé í rassinn gripið hvað það varðar, hvað veldur því að Persónuvernd gerir ekki eins ákveðna athugasemd við þetta tiltekna atriði núna. Kannski fer ég í það í seinni ræðu með hvaða hætti Persónuvernd formar umsögn sína og athugasemdir hvað þetta varðar í umsögn þessa þings.

Nú langar mig að fara yfir það sem ég ætlaði í raun að byrja á hér í dag en það snýr að kostnaðarmati og kostnaðaráhrifum þessa frumvarps. Í 6. lið greinargerðar frumvarpsins, eins og það liggur fyrir, segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu verður starfsemi Fjölmenningarseturs efld. Stofnunin tekur við nýjum verkefnum og fjölbreyttum þjónustuverkefnum vegna móttöku einstaklinga með vernd. Gert er ráð fyrir að ný verkefni Fjölmenningarseturs kalli á þrjú viðbótarstöðugildi auk starfstengds kostnaðar sem nemur árlega um 40,8 millj. kr. ásamt einskiptiskostnaði vegna búnaðarkaupa að fjárhæð 1 millj. kr. Kostnaðarauki ríkissjóðs er að fullu fjármagnaður innan ramma málefnasviðs 29.“

Þetta kann alveg að vera rétt kostnaðarmat, hvað þessar 40,8 milljónir varðar, þegar horft er til stöðugildanna sem bætast við og þeirra skrifborða, stóla og tölvubúnaðar sem þarf að kaupa, það er ekki flókið reikningsdæmi. En það sem ég gagnrýni núna, og gagnrýndi varðandi málið á síðasta þingi og þinginu þar á undan, er að engin tilraun sé gerð til að meta afleidd áhrif lagasetningarinnar. Hvað á ég við með því? Jú, ég á við það að ég tel löggjöfina, eins og hún stendur að þessu máli samþykktu, vera með þeim hætti að miklar líkur séu á að svokölluðum tilhæfulausum umsóknum um vernd á Íslandi fjölgi mjög. Við þekkjum mál erlendis og við horfum upp á það hér heima fyrir að umsóknir á Íslandi eru sex- eða áttfalt fleiri, ég man ekki hvort er, en umsóknir í Danmörku og Noregi. Eitthvað skýrir það, varla er það veðrið. Það hlýtur að vera eitthvað sem veldur því að umsóknir eru hlutfallslega mörg hundruð prósentum fleiri en í þeim löndum sem eru hvað líkust okkur. Þau svör sem ég hef fengið hingað til í þessum efnum eru að það sé þessi púllfaktor fyrirkomulagsins sem við höfum nú þegar hér heima. Ég hef áhyggjur af því að með þeirri fyrirætlan stjórnvalda að samræma móttöku, sama með hvaða hætti viðkomandi einstaklingur kemur til landsins og sækir vernd, verði Ísland fremst í bæklingum þeirra sem hafa fólk að féþúfu í þessum efnum.

Ég sé hér í salnum að ekki eru allir þingmenn sem hér eru viðstaddir sammála mér um það mat en við ræðum það kannski þegar líður á umræðuna. Það er engu að síður þannig að eitthvað veldur því að jafnmikill hlutfallslegur munur er á fjölda umsókna hér og í Noregi og í Danmörku, svo að ég haldi áfram með það dæmi. Þær eru miklu fleiri á Íslandi en til að mynda — ég ætla kannski ekki að fullyrða það, ég bara man ekki töluna nægilega til að fullyrða um Svíþjóð, en mig minnir þó að hlutfallslega séum við töluvert yfir Svíþjóð í þessum efnum. En ég þori ekki að staðhæfa það nema rifja það upp sérstaklega. Þá sitjum við eftir með spurninguna: Hvað veldur? Og er það að opna með víðtækari hætti fyrir mögulega fjölgun tilhæfulausra umsókna með þessum hætti ekki líklegt til þess að draga úr getu okkar til að gera vel við þá sem við erum að taka á móti og treystum okkur til að taka á móti í ljósi umfangs?

Ég er sammála orðum hv. framsögumanns meirihlutaálits hér fyrr í dag, hv. þm. Jódísar Skúladóttur. Hún sagði efnislega í andsvari, og þingmaðurinn leiðréttir mig ef ég fer rangt með, að við gætum ekki tekið á móti öllum. Það væri bara staðan sem uppi er og ég held að það sé raunsætt mat. Við eigum að taka vel á móti þeim sem við tökum á móti, styðja þá með ráðum og dáð til að aðlagast íslensku samfélagi, en ég held að ef við færumst of mikið í fang verði það til skaða fyrir alla sem hingað sækja. Ég held að óhætt sé að segja að dæmin sem við sjáum úr nýliðinni tíð í nágrannalöndum okkar séu — ég leyfi mér að segja það og vona að það verði ekki tekið illa upp hér í salnum — að mörgu leyti víti til varnaðar. Það hefur gengið illa með aðlögunarþáttinn víða og þá er ég ekki að tala um í samhengi við endurmenntunaraðlögun sem viðhöfð er sums staðar, alls ekki, heldur það að víða hefur gengið illa að gera hælisleitendum, nýbúum, að aðlagast samfélaginu sem þeir setja sig niður í. Afstaða okkar í Miðflokknum hefur mótast af þessu. Við eigum að gera vel við þá sem við bjóðum hingað til okkar og þá sem við tökum við, en við eigum ekki að færast meira í fang en við ráðum við.

Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson talaði um hér í andsvari — mig minnir að hann sé næstur á eftir mér á mælendaskránni þannig að við eigum mögulega orðastað eitthvað áfram með þetta — að við gætum verið að horfa á tíföldun í umsóknarfjölda miðað við undangengin ár með þeim áhrifum sem eru að verða af stríðinu í Úkraínu. Það er auðvitað alvarleg staða en það er þó þannig að mér heyrist svona heilt yfir litið að flestir þeir sem eru að flýja styrjaldarhörmungarnar í Úkraínu séu með það í huga að snúa aftur á sitt heimasvæði, þ.e. að um tímabundinn vanda sé að ræða. Vonandi er það svo en við sjáum ekki fyrir okkur með hvaða hætti stríðsátökin þróast. Við erum öll að vona að þetta verði tímabundið ástand og að það fólk sem því miður er á flótta undan þeim átökum sem þar eiga sér stað fái tækifæri til að snúa aftur til síns heima hið fyrsta.

Í því samhengi blasir við að þetta mál, leyfi ég mér að fullyrða, getur ekki haft afgerandi áhrif á það með hvaða hætti okkur getur lukkast að taka vel á móti þeim sem flýja átökin í Úkraínu. Ég held að við þurfum hvort sem er, burt séð frá þessu máli, að líta á það sem sérstakt verkefni. Ég skynja það dálítið þannig að þetta mál hafi verið sett í kórónuföt. Eins og oft hefur verið gert undanfarin tvö ár hefur verið reynt að lauma málum inn á þeim forsendum að þau væru kórónumál, vegna heimsfaraldurs, til að þau fengju hraðmeðferð í gegnum þingið. Þetta sló mig með þessum hætti þegar því var skyndilega flaggað nú í vikunni að þetta tiltekna mál — sem legið hefur fyrir um allnokkurn tíma, það var mælt fyrir því fyrir löngu og tilbúið nefndarálit hefur legið fyrir í einhvern tíma og enginn asi á því — skuli allt í einu núna teljast til þess fallið að hafa meiri háttar áhrif í tengslum við mögulega góða móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Ég held að það sé málinu ekki til bóta að reyna að setja það í þann búning. Við eigum að reyna að átta okkur á hvort púllfaktorinn aukist verulega, eins og ég og fleiri höfum áhyggjur af, með þessari nálgun og ræða það atriði.

Þá kem ég aftur að þessu mati á kostnaði. Það er algerlega galið að ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að leggja mat á afleiddan kostnað af frumvarpinu og þeim áhrifum sem það kallar fram að mínu mati og fleiri. Ef fjármálaráðuneytið er orðið þeirrar skoðunar að kostnaðarmat í máli sem þessu snúist fyrst og fremst um að súmmera saman hvað skrifborðsstólarnir og skrifborðin kosta þá erum við í vondum málum hvað kostnaðarmat frumvarpa almennt varðar. Afleiddu áhrifin geta orðið margföld, meira en hundraðföld, og þá er ég ekki bara að tala um þetta mál heldur mál sem tengjast ýmiss konar rekstri hins opinbera. Slík mál geta verið þeirrar gerðar að kostnaður við skrifstofuhald er algjört aukaatriði í heildarmyndinni. Ef við víkjum okkur undan því að leggja mat á slík atriði erum við líka í þeirri stöðu, og verðum að horfast í augu við það, þingmenn, að auka líkurnar á því að flækja þessa umræðu til framtíðar, ef við ætlum bara að láta það koma í ljós hvaða áhrif þetta hefur.

Ef ég gagnrýni aðeins hv. framsögumann álits meiri hluta nefndarinnar þótti mér kannski helst til óvarlega farið í framsetninguna varðandi það að það yrði að koma í ljós hver heildarkostnaður yrði. Þetta var í andsvörum við hv. þm. Ernu Bjarnadóttur við upphaf umræðunnar. Kostnaðurinn við málaflokkinn er töluverður í dag. Ég held að hægt væri að verja þeim fjármunum sem í hann er varið með þeim hætti að meiri árangur náist. Hægt væri að ná meiri árangri hér heima í að aðstoða það fólk sem hingað kemur eftir löglegum og skipulögðum leiðum til að aðlagast samfélaginu og líka með því að aðstoða á fjarsvæðunum, eins og ég veit að sá þingmaður sem næstur er í röðinni á mælendaskrá, hv. Gísli Rafn Ólafsson, hefur býsna mikla þekkingu og reynslu af. Ég held að hv. þingmaður geti alveg örugglega staðfest að hver milljón skilar meiri áhrifum víðar en hér á Íslandi. Í því ljósi ættum við að vera mjög opin fyrir því að styðja með meira afgerandi hætti við það að ákveðinn hluti þessa ferils eigi sér stað nær heimasvæðum þess fólks sem er á flótta og þar sem meira fæst fyrir peninginn en hér í einu dýrasta landi í heimi. Ég sakna þess að sú stóra mynd sé ekki ávörpuð, hvorki í frumvarpinu né nefndarálitinu. Mér finnst eiginlega algjört lágmark að fengið verði álit fjárlaganefndar eða sérstakt álit fjármálaráðuneytis á þessu mati á mögulegum afleiddum áhrifum. Þá liggur það bara fyrir skjalfest og menn geta útskýrt það eða barið sér á brjóst eftir 2–3 ár og sagt: Við mislásum þetta verulega eða við mátum þetta rétt. En ég held að í öllu falli sé það algjört lágmark að við þingmenn köllum eftir því að slíkt heildstætt mat fari fram. Annað er óskynsamlegt, með tilliti til meðferðar á ríkisfjármunum, meðferðar á málaflokknum og meðferðar þess fólks sem hingað kemur í leit að vernd.