152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Það eru jú þannig eins og með svo marga flokka hér inni á þingi að við erum sem betur fer sammála um býsna marga hluti. Hvort við í Miðflokknum erum systurflokkar Vinstri grænna eða einhvers annars flokks, það er mismunandi milli daga eins og við þekkjum. Sum okkar eru sammála einn daginn um Evrópumál, aðrir um hvernig eigi að hantera auðlindir landsins og þar fram eftir götunum. Þó að það komi ekki þannig fram í fjölmiðlum er það býsna oft sem skoðanir skarast þótt það sé mismunandi á milli flokka eftir því hvert málið er. (Gripið fram í.)

Að þessu sögðu erum við auðvitað ekkert að auglýsa í þessum efnum þá þjónustu sem til boða stendur. Það er auðvitað þekkt að það eru aðrir og þeirrar gerðar að ég vildi ekki vera kallaður í neinu systkinasambandi við slíka aðila í nokkru samhengi nokkurn dag ársins. Það er umræða sem við þekkjum og vitað er með hvaða hætti glæpagengi nýta sér neyð fólks. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á það í ræðu sinni hér fyrr í dag og nefndi þá sérstaklega, þó að ég hafi ekki tíma til að rifja það dæmi upp núna, dæmi frá Finnlandi þar sem finnskur ráðherra fór yfir hvaða áhrif örlítil breyting hafði hjá þeim þar sem allt í einu kom holskefla, að þeirra mati, ekki hv. formanns Miðflokksins heldur að mati Finnana, holskefla upp á tugi þúsunda viðbótarumsækjenda vegna smávægilegrar breytingar sem var gerð sem hafði síðan þessi meiri háttar áhrif af því að það voru þeir aðilar sem enginn okkar vill vera í sambandi við sem sáu betri bisness í því þann daginn en daginn áður.