152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Jú, það er gott að nota höfðatöluviðmið þegar verið er að skoða ákveðna hluti, t.d. ef þú vilt skoða hvort ungbarnadauði sé að hækka eða lækka, hvort ungbarnadauði sé meiri í einu landi eða öðru, þá getur það verið góð leið. Ég get hins vegar bent hv. þingmanni á að í öllu mannúðarstarfi tölum við um fólkið og fjölda þess. Ef hv. þingmaður flettir upp fréttum um hversu margir létust, hversu margir slösuðust eða hversu margir þurfa á mataraðstoð eða sjúkraaðstoð að halda er það ekki eftir höfðatölu. Við getum séð nærtækt dæmi, stríðið í Úkraínu, hversu margir almennir borgarar hafa látist — þar er ekki miðað við höfðatölu og ekki heldur þegar talað er um hversu margir hafa flúið land. Þegar við tölum um fólk, einstaklinga, erum við í sumum tilfellum að tala um börn og konur og þá tölum við ekki um höfðatölu. Það er svo auðvelt að nota tölur til að fela raunverulega hluti. Það að fara í þessar flóttamannabúðir, að fara og sjá fólk á flótta, þegar þú sérð menn, konur og börn sem þjást, sem þurfa aðstoð, þá hættir þetta að snúast um tölur og tölfræði og fer að verða eitthvað sem snertir hjartað.