152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég verð eiginlega að tileinka þessa ræðu mína hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni þótt ég hafi nú ætlað að fjalla um annað. Ræða hv. þingmanns hér áðan var svo uppfull af gagnlegri umræðu að ég ætla að byrja á því að bregðast við henni. Eins og ég gat um í andsvari áðan var hv. þingmaður býsna afdráttarlaus og ég held það sé gagnlegt fyrir umræðuna. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir að reyna ekki að fela afstöðu sína í málinu, eins og sá ráðherra sem flytur málið, heldur tala hreint út. En þeim mun fleiri spurningar vakna.

Hv. þingmaður virðist telja að það sé næg takmörkun, hvað varðar ásókn í að búa á Íslandi, að víkingarnir hafi kallað landið Ísland og það kunni að vera fráhrindandi, að landið sé mjög norðarlega, að það sé langt í burtu frá öðrum löndum og þar fram eftir götunum. Einangrun landsins hafði örugglega mjög mikil áhrif um aldir en nú er það allt breytt. Það setur mjög mark sitt á flóttamannamálin og hefur gjörbreytt málaflokknum frá því sem var þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um móttöku flóttamanna var gerður árið 1951.

Það er rétt að fjöldi flóttamanna vex mjög. Þó hafa oft verið meiri átök í heiminum, jafnvel þó við tökum með í reikninginn þessi nýju hrikalegu stríði eins og í Úkraínu og í Sýrlandi. Það hefur líka alltaf verði meiri fátækt í heiminum en nú er. Engu að síður var fjöldi flóttamanna ekki neitt í líkingu við það sem nú er og það er einfaldlega vegna stórbættra samskipta og ferðamöguleika. Það þýðir m.a. að fólk mun nýta þau tækifæri sem gefast til að bæta kjör sín, flytja til landa þar sem réttindi eru meiri og lífskjör betri. Og hver myndi ekki vilja gera það? Ég ímynda mér, ef ég byggi til að mynda í fátæku Afríkuríki og land í Vestur-Evrópu, til að mynda Ísland, byði upp á það að maður flyttist þangað, að ég myndi stökkva á það. Ég ætla a.m.k. að vona að ég hefði kraft í mér til þess þó að það kynni að vera langt og erfitt ferðalag. En þetta er einmitt kjarni málsins.

Milljarðar manna um allan heim gætu bætt kjör sín og líf og réttindi með því að flytja til Íslands eða annarra landa Vestur-Evrópu. Það þarf því óhjákvæmilega á einhvern hátt að hafa stjórn á fólksflutningum. Það verður best gert, að mínu mati, með því að við forgangsröðum á þann hátt að við hjálpum því fólki sem er í mestri neyð, að við hjálpum því fólki sem á ekki afturkvæmt heim til sín og verjum ekki þeim kröftum sem gætu nýst til þess að aðstoða þá sem eru í mestri neyð til að aðstoða aðra í staðinn. Ef við erum sammála um það — sem ég er reyndar ekki alveg viss um að hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson sé, ég fékk það ekki alveg á hreint hér áðan — að það séu einhver takmörk fyrir því hve lítið, fámennt land eins og Ísland getur tekið á móti mörgum sem hingað vilja flytjast, ættum við væntanlega a.m.k. að vera sammála um það innan þeirra marka að við tökum fyrst og fremst á móti þeim sem eru í mestri neyð og mestum vanda.

Hv. þingmaður nefndi það líka að hingað hefði komið töluverður fjöldi frá Venesúela á flótta undan hreinu vinstri stjórninni þar, og frá Palestínu. Margt af því fólki kom á vegum aðila sem býr á Íslandi sem skipulagði þær ferðir til Íslands. Og ef við höfum enga takmörkun, engin mörk, munu fleiri slíkir aðilar í miklu fleiri löndum selja Ísland sem áfangastað. Við komumst aldrei undan því að hafa einhver takmörk, einhver mörk. Þar ítreka ég það sem ég nefndi hér áðan að við hljótum þá, innan þeirra marka, að vilja gera sem mest gagn fyrir sem flesta þeirra sem eru í mestri neyð.

Höfðatölusamanburður hefur verið ræddur hér og eins og ég kom stuttlega inn á í andsvari var Ísland með fæstar hælisumsóknir af öllum Norðurlöndunum miðað við höfðatölu þar til fyrir skömmu. Á fáeinum árum, á mjög fáum árum, gerbreyttist það og fjöldinn varð mestur á Íslandi. Það gerðist ekki að ástæðulausu, það gerðist vegna þeirra skilaboða sem bárust héðan frá Íslandi og einnig vegna þeirra skilaboða sem bárust frá öðrum Norðurlöndum.

Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson taldi óþarft að setja þetta í samhengi við stærð landanna, nefndi að Svíar tækju á móti miklu fleirum en Íslendingar. En Svíar eru yfir 10 milljónir og ef við ætlum algjörlega að líta fram hjá stærð samfélaganna og möguleikum þeirra á að taka á móti fólki þá eru möguleikar okkar á að gera gagn minni en annarra ríkja, eða verða það a.m.k. mjög fljótlega. Hingað mun fólk sækja umfram önnur lönd, eins og hefur reyndar verið þróunin. Það mun valda verulegu álagi á íslenskan efnahag og íslenskt samfélag. Það mun draga úr getu okkar til að hjálpa fólkinu sem er mest hjálparþurfi. Þess vegna verðum við að setja þessa hluti í samhengi.

Svona stórt mál — hugsanlega stærsta viðfangsefni okkar þessi árin, þessa áratugi jafnvel, flóttamannavandinn — kallar á að menn líti á staðreyndir og innihald en varpi ekki bara fram yfirlýsingum um að við eigum að sýna mannúð án þess að útskýra hvernig það verður best gert. Er það mannúð að forgangsraða með þeim hætti að einhver sem fyrst og fremst vill komast í betur launað starf, bæta kjör sín — mjög skiljanlegt að fólk þrái það — fái hæli hér en ekki kona með barn á flótta undan stríði? Það finnst mér ekki. Einmitt vegna þess hve stórt mál þetta er kallar það á að við skoðum innihaldið og forgangsröðum til að við getum gert sem mest gagn og tryggt sem mesta mannúð.