152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er með tvær spurningar sem mig langar að bera undir hann þótt á mér brenni sannarlega fleiri spurningar. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að það að veita fólki sömu þjónustu eftir að það hefur fengið stöðu flóttamanns, sama hvernig það kom til landsins, muni hafa einhvers konar aðdráttaráhrif. Ég vil byrja á að leiðrétta þann misskilning sem mér heyrist þingmaðurinn hafa. Þarna er eingöngu um að ræða fólk sem hefur fengið viðurkennda stöðu flóttamanns. Í þeim hópi sem fær þjónustu samkvæmt þessu kerfi er ekki fólkið sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af að leiti hingað að tilhæfulausu vegna þess að því fólki er umsvifalaust synjað. Ég get alveg firrt hv. þingmann öllum áhyggjum af því að Útlendingastofnun sé ekki að standa sig í þeim efnum. Hv. þingmaður vill gera vel við flóttafólk, það flóttafólk sem er í raunverulegri neyð, og þarna erum við með hóp sem er í raunverulegri neyð og hefur fengið það viðurkennt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er: Telur hann að með því að skerða þjónustu við þetta fólk, skerða möguleika þess á að koma hér undir sig fótunum og aðlagast íslensku samfélagi, séum við að gera íslensku samfélagi gagn? Hin spurningin sem mig langaði til að beina til hans er þessi: Heyrði ég rétt að hv. þingmaður væri að leggja til að við bærum okkur saman við eða mótuðum okkur sambærilega stefnu í flóttamannamálum og ríki á borð við Sádi-Arabíu sem bara núna í síðasta mánuði var verið að hálshöggva um 80 manns, þar af erlenda verkamenn í landinu? Heyrði ég rétt?