152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:15]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem ég hætti í ræðu minni hér áðan, ég hafði ekki nægan tíma til þess segja allt sem mér liggur á hjarta í þessu máli. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem nefndi það að þrátt fyrir miklar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að við gætum nú ekki hjálpað öllum, hingað væri að koma allt of mikið af fólki, þá sé svolítið furðulegt að allt í einu sé hægt að hjálpa öllu fólki. Mig langaði til þess að benda á tvískinnunginn í því þó að ég sé reyndar ósammála því að ekki sé hægt að hjálpa öllu fólki sem hingað leitar. Ég er einfaldlega ósammála því, tel ekki hafa verið sýnt fram á að það sé ekki hægt. Sem dæmi vil ég nefna að það sem af er þessu ári eða á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 sóttu 916 einstaklingar um alþjóðlega vernd á Íslandi. Á þessum fyrstu þremur mánuðum hefur 431 einstaklingi verið veitt vernd. 431 einstaklingur hefur fengið samþykki fyrir því að dvelja á Íslandi, fengið viðurkenningu á stöðu sinni, viðurkenningu á því að viðkomandi þurfi á annaðhvort alþjóðlegri vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að halda. Það er síðan áhugavert að bera þetta saman við tölur um þá einstaklinga sem fluttir hafa verið úr landi. Ég endurtek: 431 einstaklingur á þremur mánuðum hefur fengið hér vernd. Er Ísland sokkið í svartan sæ undan þunganum? Nei, ég hef ekki orðið vör við það, enn sem komið er. Samkvæmt skriflegu svari hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni um kostnað við brottflutning fólks gegn þeirra vilja úr landi kemur fram að á síðustu þremur árum hafi 457 einstaklingar verið fluttir úr landi með valdi. Þetta hefur náttúrlega kostað fleiri hundruð milljónir. Á meðan var á þremur mánuðum hægt að veita sambærilegum fjölda leyfi til að dvelja á Íslandi og það kostaði ekki 200 eða 300 milljónir íslenskra króna. Það get ég fullvissað ykkur um. Þeir einstaklingar eru núna komnir með dvalarleyfi hér á landi. Margir með atvinnuleyfi líka, reyndar margir ekki sem er önnur umræða, og geta farið og gerst skattgreiðendur, fundið sér vinnu, fundið sér húsnæði, farið að byggja upp sitt líf eins og við viljum öll gera.

Það sem við komum inn á þarna er síðan akkúrat annað vandamál sem er í okkar kerfi núna sem ég hef aldrei almennilega skilið, sem er að það fá ekki allir einstaklingar sem er boðin dvöl á grundvelli einhvers konar mannúðarsjónarmiða atvinnuleyfi. Þeir fá ekki sjálfkrafa leyfi til þess að vinna. Það er nefnilega þannig að dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fylgir ekki atvinnuleyfi. Þetta þýðir það að ef einstaklingur vill fá að vinna sem er með slíkt dvalarleyfi, sem einnig er eingöngu veitt til eins árs í senn, þarf hann að byrja á að finna sér vinnu, sannfæra vinnuveitandann um að hann muni fá atvinnuleyfi, vonandi innan þriggja mánaða eða eitthvað svoleiðis, og gera skriflegan samning við tilvonandi vinnuveitanda og sækja um atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar í gegnum Útlendingastofnun. Þið getið rétt ímyndað ykkur í ástandi eins og er núna, þegar það vantar vinnuafl, þá eru vinnuveitendur kannski ekki að setja fremst í umsóknabunkann einstaklinga sem hafa ekki þegar heimild til að vinna hér á landi og þurfa jafnvel að bíða svo mánuðum skiptir eftir svari við því hvort þeir fái að vinna. Samkvæmt tölfræðinni eru allar líkur á að leyfið verði samþykkt en það breytir því ekki að það eru samt sem áður gríðarmiklar stjórnsýslulegar hindranir sem takmarka þessa möguleika mjög mikið. Það að þessir einstaklingar finni vinnu verður að teljast mikil heppni og mikil blessun og alls ekki auðvelt og alls ekki sjálfsagt. Bætum við í ofanálag hlutum eins og skorti á tungumálakunnáttu og að fólk hefur kannski ekki sín réttindaskjöl og menntaskjöl til reiðu eins og gjarnan á við um fólk á flótta. Hvernig á þetta að ganga upp? Þetta eru einstaklingar sem, úr því að þeir fá ekki atvinnuleyfi eða hafa ekki atvinnuleyfi, þurfa einfaldlega að þiggja ölmusu frá stjórnvöldum vegna þess að það er sem betur fer, enn sem komið er, ekki svo að á Íslandi setjum við fólk út á guð og gaddinn, algerlega allslaust og með ekki neitt á milli handanna. Það er almennt þannig enn þá að fólk í neyð, jafnvel útlendingar í neyð, eiga rétt á lágmarkssporslum til þess að geta hér tórað þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það er ekkert til að hrópa húrra yfir og það er mjög vond staða þegar einstaklingur sem vill vinna, vill geta byggt upp sitt líf, farið að lifa eðlilegu lífi, fær ekki að gera það og neyðist í rauninni til að þiggja ölmusu úr ríkissjóði. Nú stendur til, samkvæmt öðru frumvarpi sem liggur fyrir þessu þingi, því miður, að firra marga útlendinga þessum grundvallarréttindum, þessum lágmarksréttindum, og vísa þeim út á götu, engum til hagsbóta. Það skapar miklar hættur fyrir þá einstaklinga og fyrir okkar samfélag. Ég vona sannarlega að það muni ekki fara í gegn og mun sannarlega gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að það frumvarp verði samþykkt og sannfæra fólk um að það sé ekki rétta leiðin.

En varðandi þá þjónustu sem veitt er einstaklingum sem hafa fengið dvalarleyfi hér á landi, hafa fengið alþjóðlega vernd, hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þá er þetta ekki nein lúxusþjónusta. Þetta er grundvallarþjónusta sem við öll höfum þörf fyrir. Þetta er lágmarkshúsaskjól, aðgengi að menntun fyrir mörg, reyndar ekki fyrir öll og er alls ekki nóg, einhvers konar fæðispeningar og annað slíkt og félagslegur stuðningur. Það að veita fólki þessa aðstoð, þennan stuðning, er enginn lúxus og þessi grunnþjónusta er alls ekki, þvert á orð sumra þingmanna sem komið hafa hér upp í dag og ætla að koma aftur upp hér innan skamms, ástæðan fyrir því að fólk leitar hingað til lands. Ástæðan fyrir því að fólk leitar hingað til lands er sú að það vantar samastað. Það vill fá dvalarleyfi, tækifæri til að byggja upp sitt líf og standa á eigin fótum. Það er nefnilega þannig, og það hljómar alltaf jafn hjákátlega að segja það, að fólk á flótta, jafnvel þeir sem kalla má efnahagslega flóttamenn, svona eins og Íslendingar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, allir flóttamenn og allt fólk á flótta er bara fólk eins og við hin. Við erum öll bara fólk, jafn misjöfn og við erum mörg, með ólíka hæfileika, ólíkar væntingar og þrár og það besta sem við gerum til þess að einstaklingar geti blómstrað í samfélagi, orðið að góðum og gildum samfélagsþegnum, er að gefa þeim tækifæri til þess. Það er það besta sem við gerum fyrir þá einstaklinga og fyrir samfélagið vegna þess að ef við gerum það ekki, ef fólk verður fyrir útskúfun, verður fyrir jaðarsetningu og hefur ekki aðgang að grunnnauðsynjum þá vitum við að það skapar félagsleg útskúfun sem getur leitt til andfélagslegra hugsana, andfélagslegrar hegðunar. Fólk sem upplifir sig ekki sem hluti af samfélaginu er líklegra til að upplifa sig ekki bundið af reglum samfélagsins. Þessi þjónusta er okkur öllum í hag.