152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni að nokkru leyti. Ég held að margir, líklega flestir þeirra sem flýja til að mynda stríðsástand, vildu helst búa í sínu heimalandi, sínu húsi, sinni íbúð. Það var alla vega upplifun mín af því að heimsækja flóttamannabúðir í Líbanon og Ísrael. Fólkið sem maður hitti þar, yfirgnæfandi meiri hluti þess, langaði fyrst og fremst að geta snúið heim. Hins vegar er auðvitað mjög stór hópur fólks sem er einfaldlega að leita að nýjum tækifærum og ekkert út á það að setja. Það er að leita að möguleikum á að bæta lífskjör sín og það þarf ekkert mjög stórt hlutfall fólks í öðrum heimsálfum að hafa það markmið að komast til lands þar sem lífskjör eru betri og möguleikar til að auka eigin lífsgæði til þess að fjöldinn hlutfallslega miðað við Ísland geti orðið mjög mikill. Þess vegna spyr ég: Þurfum við ekki í ljósi þess að við erum lítið fámennt land að hafa a.m.k. einhver mörk á því, einhver takmörk, hversu margir geti komið hingað einfaldlega til að bæta lífskjör sín? Af því að, svo ég ítreki það, það þarf ekki svo stórt hlutfall fólks að sjá Ísland sem vænlegan áfangastað til að fjöldinn yrði töluvert meiri en nemur allri íslensku þjóðinni. Er ekki alltaf óhjákvæmilegt að setja slíku einhverjar skorður?