152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil endurtaka það sem ég nefndi hér áðan í aðeins öðru samhengi, sem er að kenningar stjórnvalda um það hvers vegna fólk leitar til eins ríkis frekar en annars, hvers vegna fjöldi flóttafólks eykst á einhverjum tíma og minnkar á öðrum, eru gjarnan getgátur. Það eru mjög litlar rannsóknir gerðar á þessu. Flóttafólk er mjög sjaldan spurt og flóttafólk hér á landi er ekki spurt kerfisbundið hvers vegna það valdi Ísland. Við höfum gert þetta í okkar vinnu, talsmennirnir, bara af einskærri forvitni. Eins og ég nefndi í andsvari mínu fyrr í dag þá er langalgengasta svarið sem ég hef alla vega fengið þegar ég spyr fólk hvers vegna í ósköpunum því dettur í hug að koma hingað í þetta ömurlega veður og myrkur og annað, þá segir fólk: Ég heyrði að hér væru mannréttindi virt. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem við erum að ræða hér sem mun hafa nein áhrif á aðdrátt að mínu mati, einfaldlega vegna þess að það sem er í rauninni verið að gera hér er ekki annað en að fela Fjölmenningarsetri aukið hlutverk við samræmingu á móttöku flóttafólks þannig að það er ekki beinlínis verið að auka þjónustu. Það er verið að gera hana skilvirkari og gera hana betri á heildina litið. Það hvarflar ekki að mér að nokkur úti í heimi muni kveikja á því að þetta sé eitthvað sem breyti einhverju eða hafi minnstu áhrif á ástæður þess að fólk komi hingað til lands. Ég get hins vegar svarað undirliggjandi spurningu hv. þingmanns sem er: Hvað tel ég að hafi aðdráttaráhrif eða fráhrindandi áhrif? Ég tel það fyrst og fremst tengjast þessu svari sem ég hef fengið frá mínum skjólstæðingum í gegnum tíðina. Ég tel það vera mikla skerðingu mannréttinda. Ef við viljum fara þá leið að reyna að gera aðstæður svo hræðilegar að fólk fælist frá held ég því miður að við munum þurfa að ganga ansi langt, (Forseti hringir.) jafnvel lengra heldur en ég held að hv. þingmaður sé reiðubúinn að gera í því að skerða mannréttindi flóttafólks.