152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið hér á undan. En mig langar í annarri ræðu minni við þessa umræðu að koma inn á rauninni kjarna þessa máls, meginefni frumvarpsins, og hvernig þeim meginatriðum sem hér eru dregin fram beinlínis hlýtur að vera ágætlega fyrir komið í kerfinu eins og það starfar í dag. Það er verið að auka heimildir Fjölmenningarseturs hvað ýmsa þætti varðar en þeir þættir eru gegnumgangandi þannig að ég sé ekki betur en það ætti að vera hægt að framkvæma þau markmið sem hér eru sett fram til að ná fram betra utanumhaldi og þjónustu við þá sem það á við um, án þess að fella stærri hópa undir það regluverk og auknu þjónustu miðað við þá þjónustu sem þeir hópar njóta í dag. Með því að hafa efasemdir um þetta frumvarp er ekki verið að tala fyrir því að draga úr þjónustu. Það er ekki það sem verið er að tala fyrir með því að leggjast gegn samþykkt þessa frumvarps eins og það liggur fyrir, heldur er verið að tala gegn því að þjónustan verði aukin mjög verulega við ákveðna hluta þeirra hópa sem hér leita hælis. Afleiðingin af því verður augljóslega sú að það þrengir að okkur að gera vel gagnvart þeim sem við teljum okkur í dag ráða við að taka við með góðum hætti og aðlaga að íslensku samfélagi. Það hefur verið því miður, finnst mér, gegnumgangandi í umræðunni í kvöld ákveðið skilningsleysi á því hvaða áhrif skilaboð stjórnvalda geta haft, skilaboð sem eru þeirrar gerðar að þau gera landið fýsilegri kost fyrir þá sem hafa neyð fólks að féþúfu. Það er verið að tala gegn því í þessum efnum. Eins og ég hef sagt hér áður og sagði í fyrri ræðu minni: Við eigum að gera vel við þá sem við aðstoðum en við eigum ekki að færast of mikið í fang því að þá gerum við of lítið fyrir fleiri en við ráðum við og það endar á hinn versta veg.

En að meginefni frumvarpsins. Það segir hér, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að fært verði í lög að Fjölmenningarsetur veiti sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku einstaklinga með vernd.“

Ég get ekki séð að það sé nokkurt vandamál að ná því markmiði fram án þess að fella alla sem hingað koma, sama með hvaða hætti það er, undir þann hatt sem þeir sem koma hingað á forsendum kvótaflóttamannakerfisins í dag falla undir. Ég bara sé ekki tenginguna á milli. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Þá er Fjölmenningarsetri falið að halda utan um boð móttökusveitarfélaga um búsetu og þjónustu byggð á þeim upplýsingum sem fyrir liggja og með tilliti til ákveðinna þátta, svo sem möguleika á námi, aðgangs að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, atvinnutækifæra og samgangna.“

Það er ekkert í þessu markmiði sem kallar á að útvíkka þá þjónustu sem kvótaflóttamannahópurinn nýtur yfir miklu fleiri og stærri hópa, ekki neitt. Það er hægt að ná markmiðum þessa frumvarps fram með allt öðrum hætti en hér er lagt til með þeim, að ég tel líklegt, gríðarlega afleidda kostnaði sem í því mun felast. Það verður raunverulega minna svigrúm til að gera vel fyrir þá sem koma hingað á forsendum kvótaflóttamannakerfisins. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Við framkvæmd þess hlutverks þarf Fjölmenningarsetur að hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum, annars vegar upplýsingum um þau sveitarfélög sem gert hafa samning við félagsmálaráðuneytið“ — sem heitir eitthvað annað í dag — „um móttökuþjónustu við einstaklinga með vernd og hins vegar um einstaklingana sjálfa frá Útlendingastofnun og sveitarfélögunum eftir því sem við á.“

Það er alveg hægt að veita Fjölmenningarsetri þessar heimildir án þess að útvíkka hópinn sem nýtur réttinda kvótaflóttafólks stórkostlega. Það er bara ekkert vandamál. Þetta er eins og oft vill verða að það eru sett fram frumvörp sem hafa oft göfugt og jákvætt markmið sem engin ástæða er til að vera á móti en svo fylgir með eitthvað sem enginn vill tala um. Hvað eru margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna, ríkisstjórnarflokkanna allra, búnir að taka til máls hér í kvöld? Það er samanlagt einn og hann gat ekki annað, verandi framsögumaður meiri hluta nefndarinnar. Sá þingmaður beinlínis gat ekki annað en komið hér í pontu, það hefði verið mjög undarlegt ef framsögumaðurinn hefði ekki mætt. Ekki er viljinn mikill til þess að tjá sig um þetta mikilvæga mál og sennilega er það óttinn við andsvör sem heldur þingmönnum stjórnarflokkanna frá pontu í dag.

Það sem ég hef þegar talið upp er allt þeirrar gerðar að lítið mál væri að útfæra þau markmið og ná þeim árangri sem að er stefnt án þess að breyta skilgreiningu á því hverjir falla undir þann þjónustuhluta sem nær utan um kvótaflóttamenn.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að kveðið sé skýrt á um heimild Fjölmenningarseturs til vinnslu persónuupplýsinga þannig að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu, bæði hvað varðar aðstoð við einstaklinga með vernd og til að geta veitt sveitarfélögum ráðgjöf og fræðslu. Sem dæmi um slíkar upplýsingar eru grunnupplýsingar um einstakling, þ.m.t. um menntun, fjölskylduhagi og atvinnuþátttöku, sem skipta máli varðandi þjónustuþörf.“

Það er ekkert vandamál að ná þessu markmiði fram án þess að útvíkka þann hóp svo mjög eins og hér er ætlunin að gera sem nýtur þeirra réttinda sem kvótaflóttamenn gera í dag. Það er ekkert vandamál. En það er bara ekki það sem þeir sem tala fyrir þessu máli vilja ræða um. Og áfram segir, með leyfi forseta, og ég er enn bara í fyrsta hluta greinargerðar frumvarpsins þar sem fjallað er um meginefni þess, þetta er í framhaldi af því þar sem ég endaði á áðan um upplýsingaheimildirnar:

„Til að tryggja að unnt sé að mæta þjónustuþörfum einstaklinganna þarf stofnunin jafnframt að geta unnið með viðkvæmar persónuupplýsingar og persónuupplýsingar sem talist geta viðkvæms eðlis, m.a. upplýsingar um ástæður þess að einstaklingnum var veitt vernd, sálræn áföll, þjóðernisuppruna og heilsufar.“

Hérna á Fjölmenningarsetur að fá upplýsingar sem þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd fá ekki undir því regluverki sem nú er stuðst við í tengslum við veitingu ríkisborgararéttar. En ég er ekki að gera athugasemd við það í sjálfu sér heldur er punktur minn sá sami: Það er ekkert vandamál að veita Fjölmenningarsetri þessi réttindi til að vinna með þessar upplýsingar án þess að útvíkka þann hóp, svo mjög sem hér er ætlunin að gera þannig að mikill fjöldi njóti þeirra réttinda sem kvótaflóttamenn gera eins og kerfið er í dag.

Nú er ég bara rétt hálfnaður með meginatriðin sem snúa að þessu en meginpunkturinn sem ég vil skilja eftir hvað þetta atriði varðar er að ef markmiðið er að veita Fjölmenningarsetri réttindi til að vinna með þessar upplýsingar til að bæta þjónustu þá er hægur leikur að gera það án þess að útvíkka svo mjög þjónustuskyldu hins opinbera gagnvart öllum þeim hópum sem hingað sækja, burt séð frá því með hvaða hætti þeir koma hingað til lands og óska verndar.