152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vonast til að komast fljótlega í það að reifa nokkra helstu þætti þessa máls, þessa stóra málaflokks, en enn þá á ég eftir að bregðast við nokkrum þeirra atriða sem fram hafa komið í þessari umræðu. Ræður hv. þingmanna Pírata, sérstaklega um þetta mál, hafa á margan hátt verið gagnlegar því að þær draga fram stór álitamál, stórar spurningar um þetta. Hér áðan talaði hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir um mörkin, raunar brást við spurningum mínum um hvar mörk ættu að liggja varðandi þann fjölda sem tekið yrði á móti. Ekki var annað að heyra á hv. þingmanni en að það væru engin mörk og við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að það væri ekki það stór hópur fólks sem myndi sækja hingað.

Þetta minnir um margt á ræður hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar hér fyrr í kvöld sem taldi bara að nafnið Ísland hefði áhrif á það að fólk myndi ekki leita hingað fyrir utan hnattræna legu, veðurfar og slíkt. En svo spurði hv. þingmaður: Hvað með EES-samninginn, 500 milljónir sem eiga rétt að rétt á að ferðast innan EES-svæðisins? Af hverju koma þessar 500 milljónir ekki til Íslands þar sem Ísland er áhugaverður, eftirsóknarverður áfangastaður? Og hvar eru Grikkirnir? spurði hv. þingmaður. Grikkirnir margir hverjir, reyndar milljónir þeirra, eru í öðrum Evrópuríkjum, rétt eins og mjög margir Pólverjar hafa flutt til annarra landa og Rúmenar, Búlgarar, fólk frá öllum nýrri löndum Evrópusambandsins en líka fólk frá Grikklandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal, ekki hvað síst, hefur flust á milli landa. En þar er lykilatriðið að það var ekki opnað fyrir þessa fólksflutninga fyrr en búið var að semja um sameiginlega sýn, sameiginlegt fyrirkomulag hvað varðar hvernig samfélag skuli rekið, þar með talin launakjör eða hver séu réttindi fólks í vinnu. Þetta er algjört grundvallaratriði til að geta opnað og nýtt þá kosti sem því fylgja, þá þarf að vera til staðar sameiginlegur skilningur á því hvaða reglum eigi að fylgja og hvaða réttinda fólk eigi að njóta. Mannréttindi eru mjög mikil á Íslandi miðað við víðast hvar annars staðar. Ég hugsa að það séu ekki mörg lönd sem skora eins hátt ef það er nokkurt land sem skorar eins hátt á sviði mannréttinda. Bent var á að það væri nú kannski meginástæðan fyrir því að fólk leitaði hingað, það væru þau mannréttindi sem eru tryggð á Íslandi. Gott og vel. Eflaust er það stór þáttur í þessu fyrir marga en það eru fleiri þættir. Það eru til að mynda lífskjör sem sumir telja reyndar nú til dags til mannréttinda. En aðalatriðið er þetta: Það eru ýmsir þættir sem gera Ísland að aðlaðandi áfangastað og það þýðir að ef við einfaldlega litum fram hjá þörfinni fyrir einhverja takmörkun og það væru engin mörk, eins og hér var lagt til, þá eru margir þættir, mannréttindi þar með talin, sem gera Ísland að sérstaklega eftirsóknarverðum áfangastað. Ég tala nú ekki um hlutfallslega þegar annars vegar er heill heimur milljarða manna sem búa við miklu lakari kjör og miklu minni mannréttindi en við Íslendingar og svo 350.000 manna þjóð á sinni eyju hér. Mjög hratt getur fjöldinn orðinn slíkur að það umbylti íslensku samfélagi en geri okkur um leið síður kleift að nýta þá velmegun sem hér er og sjálfstæði landsins til að aðstoða aðra.

Ég geri ráð fyrir, herra forseti, að ég hafi ekki tíma til að fara út í dæmið um dönsk stjórnvöld. Ég sé á klukkunni að ég hef farið aðeins fram yfir tímann.

(Forseti (BÁ): Örlítið.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir umburðarlyndið en bið hæstv. forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.