152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar hér í þessari fjórðu ræðu minni, og þær eru nú ansi stuttar orðnar, að koma inn á það sem í greinargerð með málinu fellur undir inngang þess. Þar er því lýst að málið hefur verið lagt fram tvívegis á fyrri þingum og er nú lagt fram að mestu leyti óbreytt frá fyrri þingum. Það sem kemur fram í inngangi er í rauninni tilurð málsins. Ég ætla að reyna, upp á samhengi hlutanna, að ná að fara í tilurð og nauðsyn lagasetningar eins og það horfir við ráðherranum sem leggur málið fram. Hér segir, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

„Frumvarpið var samið í samráði við starfshóp um móttökuáætlanir sveitarfélaga. Starfshópnum var falið að fylgja eftir tillögum nefndar um samræmda móttöku flóttafólks sem skipuð var af félags- og jafnréttismálaráðherra 24. mars 2017.“

Það hefur væntanlega verið hæstv. ráðherra Þorsteinn Víglundsson í þeirri ríkisstjórn sem sat obbann af árinu 2017, ríkisstjórn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks. Áfram segir hér:

„Markmið með starfi nefndarinnar var að kortleggja núverandi þjónustu og setja fram tillögur um hvernig hægt væri að bæta þjónustu við flóttafólk eftir að umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hefur verið samþykkt. Skyldi nefndin gera tillögu að samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk óháð því hvernig fólkið kemur til landsins, huga að þætti sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og tengslum á milli stjórnsýslustofnana og taka til athugunar fræðslu fyrir starfsfólk ríkis og sveitarfélaga sem kemur að móttöku flóttafólks.“

Þarna er kjarnaatriðið í því sem snýr að afleiddu áhrifunum sem ég vara við. Ég ítreka það sem segir hér, nefndin skyldi gera tillögu að samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk óháð því hvernig fólkið kemur til landsins. Reynum bara að átta okkur á því hvernig raunheimar virka. Þetta atriði getur vart annað en orðið þess valdandi að það verði meiri hvati fyrir sérstaklega þá sem gera sér neyð fólks að féþúfu og selja ferðir á þeim ömurlegu forsendum sem hefur verið rætt um hér í dag. Þetta mun gera Ísland að því er ég tel, fýsilegri kost fyrir slíka aðila. Ég minni bara aftur á dæmið þar sem fjölgun varð um tugþúsundir umsókna í Finnlandi fyrir einhverjum árum síðan á grundvelli smávægilegrar breytingar sem menn töldu að myndi engin áhrif hafa. Hér í kostnaðarmati þessa frumvarps er bara talað um kostnaðinn við að ráða þrjá starfsmenn í Fjölmenningarsetur og kaupa fyrir þá stóla, borð og tölvubúnað. Þær tölur upp á 40,8 milljónir skipta engu máli í rauninni ef við horfum á mögulegan afleiddan kostnað af þessu.

Síðan kemur hérna í 2. kafla, um tilefni og nauðsyn lagasetningar, klausa um hvað gerist með tilurð nýrrar samræmdrar móttöku einstaklinga með vernd, eins og það hafi einhvern veginn gerst af sjálfu sér og fram hjá kerfinu sem er ekki útilokað miðað við kerfisræðið sem við búum við. Það er fjallað um þann þátt og síðan er fjallað um að innflytjendaráð hafi hafið störf í nóvember 2005 og upphaflega hafi þessir og hinir ráðherra tilnefnt fulltrúa þar inn og það sé verið að lagfæra það og breyta því hvaðan fulltrúarnir koma. Nú skal skipa sex manna innflytjendaráð eftir hverjar alþingiskosningar. Með leyfi forseta:

„Talið er mikilvægt að slíkur fulltrúi hafi aðkomu að ráðinu þar sem meðal hlutverka ráðsins er að stuðla að samhæfingu og samráði milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar.“

Þarna er talað um mikilvægi þess að fulltrúi sveitarfélaga komi þarna inn. Það stendur beinlínis ekki neitt í þessum 2. kafla um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar. Allt vekur þetta einhvern veginn hjá manni þá tilfinningu að það sé verið að reyna að fela megináhrif þessa frumvarps, sem eru auðvitað þau, eins og ég sagði áðan, að nefndin, á vinnu hverrar þetta frumvarp byggir, skyldi gera tillögu að samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk óháð því hvernig fólkið kemur til landsins. Það er auðvitað skiljanlegt að menn vilji ekki skrifa þetta út í nákvæmum texta til að vekja athygli á þeirri grundvallarbreytingu sem er að verða, gangi þetta mál fram eins og það liggur hér fyrir. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Þær eru orðnar svo stuttar ræðurnar núna að ég verð að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.