152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar frá var horfið var ég að ræða aðvaranir fólks sem starfar að því alla daga að bjarga flóttafólki á Miðjarðarhafi og bregðast við þessum mikla vanda. Það sem var gegnumgangandi í mati fólks sem þekkir þetta af eigin raun var mikilvægi þess að þau skilaboð sem Vesturlönd senda frá sér feli ekki í sér hættulega hvata heldur þá hvata sem geta verið til þess fallnir að færa hlutina í betra horf og gera um leið stjórnvöldum kleift að hjálpa fleirum með áhrifaríkari hætti. Ég nefndi sérstaklega það sem nefnt var um hættuna sem fælist í því að hafa sérstakar reglur um móttöku barna sem kæmu forsjárlaus. Eins og þau bentu okkur á þarna gengur ekkert barn eitt frá Afganistan eða Bangladess til Grikklands, svoleiðis að í flestum tilvikum er annaðhvort einhver ættingi fenginn til að fylgja barninu af stað eða jafnvel einhver ráðinn í það. Því miður eru það oft og tíðum vafasamir menn. Stefna stjórnvalda má ekki vera til þess fallin að ýta undir slíkt en hún má heldur ekki vera til þess fallin að ýta undir óraunhæfar væntingar flóttamanna almennt. Það er ástæðan fyrir því að bresk stjórnvöld hafa nú gert verulega stefnubreytingu varðandi móttöku þeirra sem leggja leið sína yfir Ermasund frá Frakklandi í von um hæli í Bretlandi. Og vel að merkja, herra forseti, í mörgum tilvikum, líklega flestum tilvikum, er um að ræða fólk sem hefur þegar fengið hæli í Frakklandi eða öðru Evrópuríki á meginlandinu. Í öllum tilvikum er um að ræða fólk sem hafi það átt rétt á hæli gat fengið það í Frakklandi eða því Evrópulandi sem það kom fyrst til. Engu að síður hefur þetta fólk margt hvert búið í tjaldbúðum í Norður-Frakklandi og leitað leiða, oft hættulegra leiða, til að komast yfir Ermasundið, í rauninni flýja Frakkland, flýja Evrópusambandið, og komast á strendur Bretlands. Þetta er þróun sem hefur staðið í mörg ár en hefur farið mjög vaxandi. Fjöldinn hefur aukist ár frá ári og raunar mánuð frá mánuði og viku frá viku. Viðbrögð breskra stjórnvalda voru þau að semja við ríkisstjórn Afríkuríkisins Rúanda um að koma þar á fót móttökustöð fyrir hælisleitendur þannig að þeir fari fyrst þangað og sæki þá þar um hæli í Bretlandi eftir atvikum en málin verði afgreidd þar. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem slíkum aðferðum er beitt. Ástralir brugðust við töluverðum straumi báta, sem oft voru varla haffærir eða alls ekki haffærir, til landsins með því að byrja á því að vísa fólki á eyju utan landsins en það reyndar leiddi til þess að straumurinn hætti, fólk hætti að ráðast í þessa hættuför. Sá er tilgangurinn hjá breskum stjórnvöldum með þessum samningi við Rúanda, ekki sá að senda sem flesta til Rúanda heldur að draga úr hvatanum til þess að leggja í hættuför, (Forseti hringir.) oft á óraunhæfum forsendum.

Herra forseti. Þetta var örlítill útúrdúr hjá mér í þessum kafla (Forseti hringir.) og bið ég yður því að setja mig aftur á mælendaskrá.