152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar frá var horfið var ég að ræða nýjustu fréttir af viðbrögðum breskra stjórnvalda við mjög auknum straumi flóttamanna frá Frakklandi til Bretlands. Þau felast einkum í því að koma á móttökustöð utan landsins, raunar mjög langt frá Bretlandi, í Rúanda í Afríku. Rúanda er land sem, eins og menn eflaust þekkja, gekk í gegnum hryllilega borgarastyrjöld fyrir ekkert mjög mörgum árum en hefur náð talsverðum árangri við að byggja upp samfélagið og er Rúanda raunar þekkt m.a. fyrir jafnrétti í stjórnmálum þar í landi, jafnt hlutfall kynjanna á þingi, ég held reyndar að konur séu þó fleiri en karlar á þinginu í Rúanda. Bresk stjórnvöld gerðu samkomulag við stjórnvöld í Rúanda um þessa móttökustöð þar sem ákveðin þjónusta verði veitt og öryggi tryggt. En þetta var ekki gert með það að markmiði að sem flestir færu til Rúanda heldur með það að markmiði að sýna að það væri æskilegra að fara aðra leið en að fara í hættuför yfir Ermarsundið. Ég vitnaði til reynslu Ástrala sem bar töluverðan árangur í þessu efni og bjargaði eflaust fjölmörgum mannslífum. En ég heyrði fyrst af hugmyndinni um móttökustöð í Rúanda frá Danmörku, frá forsætisráðherra jafnaðarmanna í Danmörku. Ég þekki reyndar ekki hver staða á viðræðum Dana við Rúanda er núna en a.m.k. er ljóst að stefna danskra jafnaðarmanna í þessum málaflokki er orðin nokkuð leiðandi í umræðunni í mörgum löndum og ekki að ástæðulausu. Danskir jafnaðarmenn hafa árum saman farið í gegnum reynsluna af mistökum fortíðar og leitast við að bregðast við með aðferðum sem byggjast á staðreyndum og raunverulegu innihaldi aðferða sem geta virkað. Þess vegna ætla ég hér á eftir að fara yfir stefnu danskra jafnaðarmanna sem er umfangsmikil, ítarleg og vel ígrunduð.

En áður en ég kem að því ætla ég að fara yfir annan stóran kafla í þessu máli sem snýr að þeirri grundvallarbreytingu sem hefur átt sér stað varðandi flóttamannastraum í heiminum. Við heyrum reyndar oft ræður, m.a. hér í þessari umræðu fyrr í dag, frá hv. þingmönnum Pírata um að heimurinn sé orðinn svo hættulegur, farið svo versnandi vegna aukinna stríðsátaka og veðurfarsbreytinga o.fl., að flóttamönnum hafi fjölgað mjög fyrir vikið. Þarna eru menn ekki að leita að hinum raunverulegu skýringum, herra forseti, því að heimurinn hefur, þrátt fyrir allt og þrátt fyrir nýjustu hörmungafréttir af stríði í Evrópu, á heildina litið undanfarna áratugi farið mjög batnandi og það á flestan hátt. Fátækt hefur minnkað hratt í heiminum, hlutfallslega hafa aldrei jafn margir komist úr fátækt eins og nú. Heilbrigði, önnur lífsgæði, lífaldur, allt er þetta að batna og hefur batnað jafnt og þétt lengi. Tækninni fleytir fram og nýtist sífellt fleiri þjóðum, fleira fólki, og heimurinn hefur á heildina litið smátt og smátt orðið friðsælli. Nú skal ég bara sýna hæstv. forseta súlurit sem sýnir þetta. Þetta er mannfallið í stríði á 20. öldinni og fram á þessa öld. Það leynir sér ekki að þarna hefur orðið mjög veruleg breyting til hins betra. Það falla ekki nærri því jafn margir í stríði og áður. Hér er ég ekki bara að tala um hlutfallslega heldur á heildina litið. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ósköp líður tíminn hratt. Ég var bara búinn að klára innganginn að þessum kafla og bið yður því að setja mig aftur á mælendaskrá.