152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég veitti því ekki athygli hvort komu fram upplýsingar um hvort ráðherrann væri í húsi. Ég er ekki að kalla eftir því að hann verði kallaður í hús ef hann er farinn heim.

(Forseti (BÁ): Forseti telur að ráðherra sé ekki í húsi, miðar við skráningu sem forseta er kunnugt um.)

Ég þakka fyrir upplýsingarnar, en sé ráðherra í húsið þá er hann velkominn hingað til okkar í þessa umræðu. Það væri til mikilla bóta.

Samkvæmt frumvarpinu eins og það liggur fyrir er ekki annað að sjá en að málið snúi fyrst og fremst að tæknilegum atriðum og auknum réttindum Fjölmenningarseturs. Þá verður þingheimur að fá upplýsingar um það. Af því að nú á sá sem hér stendur ekki sæti í þeirri nefnd sem um málið fjallaði, og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki heldur, þá erum við í þeirri stöðu að eiginlega verða að fá að kalla eftir því hver var meining hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar þegar hann svaraði spurningu þess sem hér stendur í andsvörum við framsöguræðu sína þann 1. febrúar síðastliðinn þegar ég spurði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Að þessu frumvarpi samþykktu, eins og það liggur fyrir, eru þá réttindi einstaklinga með vernd í öllu þau sömu og réttindi einstaklinga sem koma hingað undir kvótaflóttamannakerfinu?“

Svar hæstv. ráðherra var, með leyfi forseta:

„Til að svara fyrri spurningu hv. þingmanns þá er svarið: Já, þarna er verið að samræma þau réttindi sem annars vegar kvótaflóttafólk nýtur og hins vegar þeir sem fá vernd með öðrum hætti.“

Skýrara getur þetta ekki orðið. Ég taldi áðan upp þau réttindi sem kvótaflóttamenn njóta og sum þeirra eru rýmri en þau sem aðrir hópar sem þarna falla undir njóta. Það verður þá í öllu falli einhver fulltrúi stjórnarflokkanna, og helst framsögumaður nefndarálits meiri hluta eða hæstv. ráðherra, að koma hér og útskýra fyrir okkur sem reynum að átta okkur á þessu máli hvort þetta hafi verið misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Ef þetta er ekki misskilningur og ef þetta er ekki meining hæstv. ráðherrans þá þarf það líka að koma fram. Þá þarf að koma fram með hvaða hætti og hvar aukið hefur verið við þessi réttindi því það verður auðvitað ekki gert á grundvelli skýrslu vinnuhóps sem var unnin. Sú breyting þarf að eiga sér stað með öðrum hætti.

Það voru fleiri þingmenn sem fóru í andsvör við hæstv. ráðherra á þessum tíma, þann 1. febrúar síðastliðinn, og höfðu áhyggjur af sambærilegum þáttum. Hv. þm. Birgir Þórarinsson spyr hér hæstv. ráðherra, með leyfi forseta.

„En mig langar svolítið að fá að vita hver sú aukna þjónusta er, sem á að fara að veita hælisleitendum og þá í samanburði við kvótaflóttamenn.“

Og hæstv. ráðherra svarar einhverju allt öðru og hv. þm. Birgir Þórarinsson ítrekar spurningu til félaga síns í ríkisstjórn og segir, með leyfi forseta:

„Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en ég held að hann hafi ekki komið inn á það í hverju þessi þjónusta er fólgin.“

Þannig að strax þarna er hæstv. ráðherra farinn að fara eins og köttur í kringum heitan graut varðandi það hvað í þessu felst. Það er auðvitað ekki boðlegt að hér séum við í þeirri stöðu að það eigi að þrýsta í gegn frumvarpi þar sem einn þingmaður stjórnarflokkanna þriggja kemur í ræðu í 2. umr. og sá eini kom í ræðu af því hann bara hreinlega gat ekki annað, verandi framsögumaður nefndarálits. Sá eini sem mætti hingað gat ekki annað. Af hverju er þetta?

Við verðum að halda áfram að leita svara við þessu því að svör hæstv. ráðherra hinn 1. febrúar gera ekkert annað (Forseti hringir.) en að auka á það hversu óljóst þetta er og þarfnast skýringar.

Ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur í ræðu vinsamlegast.