152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var að fara yfir þá mikilvægu og merkilegu staðreynd að fjöldi flóttamanna í heiminum hefur ekki aukist vegna þess að heimurinn hafi versnað. Hann hefur frekar aukist vegna þess að heimurinn hefur batnað og fleiri haft tækifæri til þess að freista gæfunnar og ferðast lengra en áður. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að ef menn líta ekki til staðreynda þegar þeir hanna lausnirnar til að taka á vandamálunum þá leysa þær ekki vandamálin. En því miður eru stjórnmálin orðin allt of upptekin af ímynd og yfirbragði og frösum fremur en raunverulegu innihaldi og staðreyndum og leitinni að lausnum sem virka. Við þurfum að halda áfram að leita allra leiða til að bæta lífskjör fólks um allan heim en það mun ekki leysa flóttamannavandann, það mun ekki draga úr straumnum. En það er þá enn frekar áminning um mikilvægi þess að forgangsraða í þágu þeirra sem eru í mestri neyð, þeirra sem geta ekki snúið heim, þeirra sem eru ofsóttir, eru í hættu og hjálpa því fólki, en ekki reka kerfið með þeim hætti sem býður upp á misnotkun þess því að það bitnar fyrst og fremst og umfram allt á þeim sem veikast standa.

En þótt heimurinn hafi farið batnandi undanfarna áratugi megum við ekki líta svo á að það sé sjálfgefin þróun. Við þurfum að verja árangurinn og ýta undir áframhaldandi árangur. Það er við hæfi að rifja upp að í byrjun 20. aldar ríkti mikil bjartsýni. Heimurinn hafði þá farið mjög batnandi og samskipti, samstarf, viðskipti milli ríkja hafði aukist til mikilla muna og mjög hratt. Raunar hefur frelsi í milliríkjaviðskiptum aldrei orðið eins mikið og það var árið 1913 fyrir meira en 100 árum síðan. Árið eftir hófst fyrri heimsstyrjöldinni. Heimskreppa fylgdi í kjölfarið, svo seinni heimsstyrjöldin og árangurinn fram að fyrri heimsstyrjöld tryggði ekki viðvarandi áframhaldandi árangur. Þess vegna þurfum við að verja þann árangur sem næst en við þurfum líka að hafa hugfast hvernig árangur næst til að geta varið hann og aukið við hann.

Nú stendur heimurinn frammi fyrir mjög stórum úrlausnarefnum. Sum þessara úrlausnarefna eru farin að breyta pólitísku landslagi á Vesturlöndum. Það er ekki vegna þess að hin hefðbundnu stjórnmál eins og þau eiga að virka séu að takast á við þessi úrlausnarefni, þvert á móti. Það er vegna þess að þau eru ekki að gera það. Þau eru ekki að taka á stóru vandamálunum, a.m.k. ekki með lausnum sem virka, frekar með umbúðum og yfirborðsmennsku. Það má nefna sérstaklega þrjú risastór mál sem við er að eiga. Þau hafa öll áhrif á afkomu fólks og atvinnu. Þetta eru áhrif alþjóðavæðingarinnar, áhrif nýju iðnbyltingarinnar, sem sagt hátækni- og gervigreindarbyltingarinnar, og loks þessi mikli straumur fólks milli landa frá fátækari löndum til Vesturlanda. Á þessum stóru málum þurfum við að taka og leita raunverulegra lausna til að forðast það að lenda í því sama og við lentum í í upphafi 20. aldarinnar, því að áframhaldandi árangur er ekki tryggður eins og við höfum því miður mjög stóra áminningu um nú í Úkraínu. Og hvernig náum við árangri á sviði flóttamannamála? Hvernig hjálpum við hælisleitendum best?

Það verður sýnist mér, herra forseti, þegar ég lít á klukkuna, að verða efni næstu ræðu minnar og fyrir vikið bið ég hæstv. forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.