152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

bankakerfi framtíðarinnar.

[11:04]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær hélt ég ræðu um bankakerfið í Þýskalandi og þar sem hæstv. ráðherra var ekki viðstaddur í þingsal langar mig til að rifja upp nokkrar staðreyndir um þýskt bankakerfi. Í Þýskalandi er starfræktur öflugur samfélagsbanki sem heitir Sparkasse og hefur um 50 milljónir viðskiptavina. Það er þannig að Sparkasse og samvinnubankarnir í Þýskalandi ráða yfir 70–75% hlut á markaðnum í almennri bankastarfsemi. Þýskir einkabankar, með Deutsche Bank í fararbroddi, hafa 25%. Svo undarlegt sem það hljómar er hagnaður Sparkasse og samvinnubankanna meiri en einkabankanna og ef hagnaður myndast hjá slíkum bönkum þá rennur hann allur til almennings en ekki til hluthafa. Til þeirra ríkir gríðarlegt traust.

Það er mikil samkeppni á þýska markaðnum vegna samfélagsbankanna og þess vegna er ódýrt að vera viðskiptavinur í banka í Þýskalandi. Ef við værum t.d. með samfélagsbanka í Reykjavík — þetta er oft svæðisbundið — og hann sýndi hagnað þá færi í hagnaðurinn t.d. í að byggja íþróttahöll, eitthvað sem er samfélaginu til góða eða eitthvað annað. Þannig starfa samfélagsbankarnir í Þýskalandi. Við í Flokki fólksins höfum verið þeirrar skoðunar einn flokka á þingi að við ættum ekki að selja frá okkur neinn banka fyrr en við værum búin að fastmóta einhverja sýn á hvers konar bankakerfi við viljum sjá á Íslandi til framtíðar. Við erum mjög hrædd, eins og almenningur í dag, um að saga einkabankanna endurtaki sig. Einsleitt bankakerfi er viðkvæmara en fjölbreytt bankakerfi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin hafi rætt hvers konar bankakerfi hún sér fyrir sé á Íslandi til framtíðar.