152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að hafa haft milligöngu um að hæstv. viðskipta- og menningarmálaráðherra mun taka þátt í sérstakri umræðu er tengist bankahruninu síðar í dag.

Bara það sem kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma áðan, og þá eru eftir sérstöku umræðurnar síðar í dag, undirstrikar mikilvægi þess að forseti hlutist til um það að hæstv. innviðaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, gefi kost á samtali hér í þinginu. Það er einn þingdagur eftir í þessari viku, það verður þingfundur á morgun. Nú veit ég ekki hvort hæstv. innviðaráðherra áætlar að vera viðstaddur hér í þinginu á morgun, en ég vil óska eftir því að hæstv. forseti hlutist til um það að þingmenn geti átt orðastað við formann Framsóknarflokksins sem kom að þeirri ákvörðun sem tilkynnt var um að tekin hafi verið í einhvers lags samtali formanna stjórnarflokkanna um að leggja niður Bankasýsluna. Þannig að það er púsl inn í þá mynd sem er að teiknast upp hérna sem svo augljóslega er þörf á að fylla betur inn í í ljósi þess sem kom fram í orðum hæstv. ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma áðan.