152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það var býsna margt dapurlegt við ræðu hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Í fyrsta lagi náttúrlega mantran um að við höfum fengið bankana á silfurfati, sem er væntanlega eitthvað sem tugþúsundir Íslendinga sem lentu illa í hruninu geta ekki kvittað upp á. Í öðru lagi var það auðvitað verðmætamatið sem kom fram hjá hv. þingmanni, að peningar séu það sem skipti ekki bara mestu máli heldur eiginlega öllu máli. Skítt með siðrofið eða traustið sem er hrunið. Hér hefur nefnilega grafist allalvarlega undan trausti landsmanna á stjórnvöldum og ég býst við að fyrsta skrefið í langri leið að endurreisa það traust sé að hæstv. fjármálaráðherra víki.