152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[16:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt, fyrir þá sem nú eru að fylgjast með, að nefna hér stuttlega hvað það er sem ég tel að sé nauðsynlegt að verði leitt fram í vinnu nefndar milli 2. og 3. umr. hvað þetta mál varðar. Það hefur komið fram, í skýrum svörum hæstv. ráðherra, að frumvarpinu sé ætlað „að jafna þjónustu við flóttafólk, hvort sem það kemur hingað til lands á eigin vegum, í boði stjórnvalda eða í gegnum fjölskyldusameiningu.“ Það liggur fyrir úr andsvari hæstv. ráðherra að að frumvarpinu samþykktu munu þeir einstaklingar sem hingað koma á öðrum forsendum en undir hatti kvótaflóttamannakerfisins, sem sagt í boði ríkisins í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, njóta sömu réttinda og römmuð eru inn í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks sem gefnar voru út 10. maí 2013. Þar er áherslan sérstaklega á 15. gr. sem rammar þetta inn en 3. kaflinn í heild sinni tekur á þeim réttindum sem kvótaflóttafólk nýtur við komu hingað til lands.

Þessi áhrif eru allt annars eðlis en þau áhrif sem reynt er að leggja mat á í kostnaðarmati frumvarpsins sem við teljum svo mikilvægt að verði leitt fram og í raun algerlega ótækt að þingmönnum sé boðið upp á að taka afstöðu til jafn mikilvægs máls og hér er undir án þess að þeir kostnaðarþættir liggi fyrir. Það ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að breyta miklu hvað afstöðu fólks til málsins varðar en það er þannig að við getum ekki sem þingmenn tekið ákvarðanir um mikilvæg mál sem hafa mikil áhrif, bæði á einstaklinga og hag ríkissjóðs, bæði í plús og mínus, til lengri tíma litið. Það er ekki boðlegt að við tökum slíka ákvörðun meðvitað með lokuð augun og lítum fram hjá þætti sem er auðvelt að ná utan um. Það sem ég á hér við er að kostnaðarmatið, eins og það liggur fyrir í frumvarpinu, upp á 40,8 millj. kr. á ári, snýr bara að áætluðum starfsmannakostnaði Fjölmenningarseturs og kaupum á skrifborðum og stólum undir þessa ágætu starfsmenn.

Ég tala hér fyrir því, og það er ekki flókið að reikna út, að kostnaðarmatið fari fram miðað við þann fjölda sem mun njóta aukinna réttinda á grundvelli samræmdrar þjónustu út frá þeim sem hafa fengið vernd og hlotnast réttindi innan þess tímaramma sem 15. gr. viðmiðunarreglna flóttamannanefndar rammar inn, og árlegur kostnaður reiknaður út, t.d. miðað við meðalfjölda síðustu þriggja ára verði sama fjölda veitt vernd árlega hér eftir og hlutfall kvótaflóttamanna, og þeirra sem koma eftir öðrum leiðum, verði sambærilegt og verið hefur undanfarin ár. Þetta er ekki flókið reikningsdæmi. Þetta er mjög einfalt reikningsdæmi þannig að það blasir við að áður en málið kemur hér til lokaafgreiðslu í þriðju umferð, komi til þess, þá verða þessar upplýsingar að liggja fyrir. Það er alveg fráleitt að þetta mál verði samþykkt hér í þinginu á grundvelli þess kostnaðarmats sem liggur fyrir. Það væri jafnvel verri meðhöndlun ríkisfjár en manni þykir oft meðferðin á peningum hér hinum megin götunnar á öðru stjórnsýslulegu leveli.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa við upphaf umræðunnar eftir það hlé sem á henni varð fyrir þá sem koma nýir að sjónvarpinu eða að nýju inn í salinn. Ég býð hv. þingmenn velkomna sem eru nýkomnir í salinn og fylgjast andaktugir með. Það er ánægjulegt að verða vitni að því. Það er nauðsynlegt að þessu sé haldið til haga og haft í huga hvað það er sem við viljum kalla fram og er nauðsynlegt að kalla fram áður en þetta frumvarp er tækt til lokaafgreiðslu.