152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

listamannalaun.

408. mál
[20:04]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Framlag listamanna til íslenskrar menningar er ómetanlegt. Ritlist, leiklist, tónlist, myndlist, hljóðlist, ljóðlist, dans, og aðrar greinar sem lengi mætti upp telja, er mikilvægur hluti af menningu okkar og ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs. Mjög mikilvægt er að styðja við listamenn, ekki bara vegna áhrifa heimsfaraldurs heldur þarf að auka við stuðning við listamenn til lengri tíma litið. Það þarf að fjölga listamannalaunum og styðja af alvöru við listamenn landsins. Það er kominn tími til að við hættum að afgreiða listamannalaun eins og þau séu ölmusa. Fjárfesting í listum er ekki bara fjárfesting í ómetanlegum menningararfi heldur líka fjárfesting sem skilar peningum í ríkiskassann. Það vantar allan fyrirsjáanleika og öryggi í starfsumhverfi listamanna.

Íslenska þjóðin er einstaklega rík af hæfileikaríku og menntuðu listafólki sem þarf að berjast fyrir því að fá að starfa við það sem það brennur fyrir og hefur menntað sig til þrátt fyrir að það margborgi sig á alla mögulega vegu að fjárfesta í sköpun þessara einstaklinga. Það er ágætt að loks standi til að bæta listamönnum upp það tekju- og tækifæratap sem kórónuveirufaraldurinn olli þeim. En það þarf kannski að hugsa þetta aðeins lengra og skoða metnaðarfyllri leiðir til að margfalda þá sköpun sem á sér stað hér á landi. Landsmenn eru svo heppnir að fá að verða þess aðnjótandi að eiga aragrúa ótrúlega hæfileikaríks listafólks sem gerir líf annarra í samfélaginu á einn eða annan hátt innihaldsríkara. Samvera, fegurð og tilfinningar eru nokkur orð sem lýsa því sem listafólkið gefur okkur hinum.

Ég vil bara fagna því að þetta frumvarp er komið fram og ég styð það heils hugar.