152. löggjafarþing — 72. fundur,  29. apr. 2022.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum.

[11:04]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ernu Bjarnadóttur fyrir að taka þetta upp hér í dag. Um langa hríð hefur verið unnið að því að koma þessum málum Garðyrkjuskólans betur fyrir en verið hefur um 15 ára skeið. Og viðurkennum það bara, það voru mistök að setja Garðyrkjuskólann undir Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Við höfum í talsverðan tíma unnið að því að reyna að höggva á þann hnút að Garðyrkjuskólinn, samkvæmt lögum sem þessi salur setti, heyri undir hann. Á ríkisstjórnarfundi nú rétt áðan kynntu mennta- og barnamálaráðherra og háskólamálaráðherra samkomulag sem byggist á því að frá og með 1. júlí tekur FSu við Garðyrkjuskólanum. Það verður stefnt að því að hafa hann sem sjálfstæða einingu. Öllum starfsmönnum staðarins er boðin vinna hjá nýrri stofnun. Það verður leitað eftir því að efla starfsemina. Það verður sett á laggirnar framtíðarnefnd sem fjallar um það hvernig best er að koma fyrir annars vegar þeirri rannsóknarstarfsemi sem Hvanneyri hefur haft með að gera á Reykjum en ekki síður kannski þeim tengslum sem er ekkert óeðlilegt að séu þarna á milli.

Eins og hv. þingmaður lýsti er þetta viðurkennt starfsnám, löggilt iðngrein. Hún þarf kannski líka að eiga möguleika á að komast á háskólastig. Ég held því að það sé mjög gott að framtíðarnefndin, sem verður skipuð öllum aðilum sem að koma undir forystu menntamálaráðuneytisins, fái tíma til að greiða úr því til þess að við sjáum einmitt að þetta verði krúnudjásn íslensks landbúnaðar því að ég er sammála hv. þingmanni um að Reykir, aðstaðan þar, eigi að vera það. En í 15 ár hefur þvert á móti verið unnið í þá átt að það sé alls ekki eins og sést ef fólk heimsækir staðinn.