152. löggjafarþing — 72. fundur,  29. apr. 2022.

fsp. 5.

[11:06]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í fyrsta lagi varðandi það að starfsmönnum verði boðin vinna í nýju umhverfi — og vitnað var til ríkisstjórnarfundar í morgun. Bréfið er dagsett 26. apríl. Þessar upplýsingar voru ekki fyrir kennara, þær ákvarðanir sem þú ert að vitna til. Hvað gerist þegar fólk fær svona bréf? Það fær áfall. Þar að auki er það álit lögfræðinga Félags íslenskra náttúrufræðinga að frá og með 1. maí, þegar uppsögnin tekur gildi, sé búið að leggja starfið niður. Það er mánuður eftir af skólastarfinu. Í öðru lagi er það þessi söguskýring að það hafi verið mistök að setja Garðyrkjuskólann undir Landbúnaðarháskólann. Ég minni á það að Landbúnaðarháskólinn er líka með starfsnám þannig að það er ekkert sérstakt að hann þurfi að halda úti þessu starfsnámi á Reykjum. Hann er með starfsnám annars staðar þannig að það í sjálfu sér hefði ekki átt að vera fyrirstaða. Fyrirstaðan hlýtur að vera sú að þeir sem stjórnuðu hafa klúðrað einhverju.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina orðum sínum til forseta en ekki til einstakra hæstv. ráðherra eða hv. þingmanna. )