152. löggjafarþing — 72. fundur,  29. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[12:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, frestun framkvæmda. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti. Eins og kunnugt er er með frumvarpinu lagt til að frestað verði til 1. janúar 2023 framkvæmd ákvæða er varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar sem komið var á með lögum nr. 107/2021. Fyrrgreind lög tóku gildi 1. janúar 2022 en þó áttu ákvæði er varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar ekki að koma til framkvæmda fyrr en 28. maí 2022. Það er í raun þetta stjórnskipulag barnaverndar í landinu, grundvallarbreyting á stjórnskipulagi barnaverndarnefnda, sem er verið að fresta gildistökunni á fram til áramóta og að gamla fyrirkomulagið, eða það fyrirkomulag sem nú er til staðar, haldi sér þangað til.

Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að fresta gildistökunni til 1. janúar og leggur auk þess til nokkrar breytingartillögur sem eru tæknilegs eðlis, m.a. það að frumvarpið öðlist þegar gildi. Engin þeirra tillagna hefur efnisleg áhrif að öðru leyti en þau að gildistakan verði nú þegar.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir á þskj. 938. Undir nefndarálitið skrifa Líneik Anna Sævarsdóttir formaður, Ágúst Bjarni Garðarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Jódís Skúladóttir, Oddný G. Harðardóttir, Óli Björn Kárason og Ásmundur Friðriksson, sem var fjarverandi og ritar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Ég vil þakka ágætri velferðarnefnd fyrir gott samstarf við að ljúka þessu máli á þeim skamma tíma sem við höfðum til þess og legg til að frumvarpið verði samþykkt.