152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

sorgarleyfi.

593. mál
[14:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mikilvægt frumvarp að ræða og sjálfsagt að sorgarleyfi sé veitt við andlát barns. Í skilgreiningunni á barni í frumvarpinu kemur fram að það sé einstaklingur sem er yngri en 18 ára. Þá er spurningin: Hvenær verður barn barn? Samkvæmt frumvarpinu er hægt að gefa foreldrum sorgarleyfi eftir andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Það er um það bil þá sem barn getur lifað óháð því að vera í móðurkviði. Í 2. mgr. 8. gr. segir:

„Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á foreldri sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að tvo mánuði frá þeim degi sem fósturlátið á sér stað.“

Nú vil ég minna á lög um fóstureyðingar á Íslandi, en samkvæmt síðustu breytingu er hægt að eyða fóstri eða barni í móðurkviði í lok 22. viku. Það miðast eingöngu við það hvenær barn getur lifað sjálfstætt óháð móður, það er sú skilgreining. Ég tel grundvallaratriði að gerð verði breyting á þessu frumvarpi á þann veg að ákveði móðir að eyða barni eftir 18. viku þá geti hún líka farið í sorgarleyfi. Þá sé ekki bara fósturlát undir heldur sé líka heimilt fyrir konu sem lætur eyða fóstri eftir 18. viku að fara í sorgarleyfi. Ég tel rétt að það verði breyting á þessari löggjöf þannig að þetta eigi ekki eingöngu við um fósturlát heldur líka þá ákvörðun að eyða fóstri eftir 18. viku. Annars tel ég þetta mjög þarft frumvarp og mjög gott, en ég rak augun í þetta tilvik og fór mikið að spá í hvar neðri mörkin væru. Ég tel eðlilegt að það sé ekki eingöngu fósturlát heldur líka þegar kona ákveður að eyða fóstrinu og þá sorg sem foreldrarnir fara þá í gegnum.